Ngannou þungavigtarmeistari eftir rothögg

Francis Ngannou er nýr þungavigtarmeistari UFC.
Francis Ngannou er nýr þungavigtarmeistari UFC. AFP

Francis Ngannou og Stipe Miocic börðust um þungavigtarbeltið í UFC í blönduðum bardagalistum í nótt. Ngannou hafði sigur gegn Miocic, sem var fyrir bardagann ríkjandi þungavigtarmeistari.

Fyrir rúmum þremur árum hafði Miocic haft betur gegn Ngannou í fyrri titilbardaga þeirra.

Hinn kamerúnski Ngannou hafði greinilega lært af reynslunni frá þessum fyrri bardaga og var þolinmóður í bardaga næturinnar.

Eftir nokkuð rólega fyrstu lotu, þar sem Ngannou hafði þó yfirhöndina með nokkrum góðum spörkum, hitti Ngannou andlit  Miocic með vinstri handar höggi snemma í annarri lotu.

Ngannou fylgdi því eftir með fleiri höggum en Miocic stóð og reyndi að svara. Ngannou smellhitti þá andlit Miocic með vinstri krók sem felldi Miocic niður. Ngannou fylgdi því eftir með einu höggi í gólfinu og Miocic var rotaður.

Ngannou er þar með nýr þungavigtarmeistari UFC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert