Usman varði veltivigtartitilinn

Kamaru Usman kýlir Jorge Masvidal í gólfið í nótt.
Kamaru Usman kýlir Jorge Masvidal í gólfið í nótt. AFP

Nígeríski bardagakappinn Kamaru Usman varði belti sitt í veltivigt í UFC í blönduðum bardagalistum þegar hann rotaði Jorge Masvidal í aðalbardaga UFC 261 í Jacksonville í Flórída í Bandaríkjunum í nótt.

Í fyrstu lotu bardagans var Usman öflugur standandi en Masvidal að sama skapi ógnandi. Usman náði fellu en Masvidal notaði olnbogana vel er hann lá á bakinu og náði að koma sér upp.

Í annarri lotu hélt Usman áfram að pressa og smellhitti með frábæru höggi með hægri og hrundi Masvidal í gólfið. Usman fylgdi högginu eftir með nokkrum höggum í gólfinu og rotaði þar með Masvidal.

Þar með heldur Usman veltivigtartitli sínum og hefur nú unnið 14 bardaga í UFC í röð, sem er langlengsta yfirstandandi sigurhrina bardagakappa í keppninni.

Rothögg Usman í nótt markaði aðeins annað skiptið sem Masvidal tapar eftir rothögg á 50 bardaga ferli. Fyrra skiptið átti sér stað árið 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert