Fjölmennasta mótið frá upphafi

Keppt verður í brasilísku jiu-jitsu á Mjölni Open um helgina.
Keppt verður í brasilísku jiu-jitsu á Mjölni Open um helgina. Sigurgeir Sigurðsson

Alls eru 92 keppendur í brasilísku jiu-jitsu skráðir til leiks á Mjölni Open, sem fer fram í 15. skipti um helgina. Er því um fjölmennasta Mjölni Open að ræða frá upphafi.

Keppt er í brasilísku jiu-jitsu (BJJ) án galla (nogi) eða uppgjafarglímu og er hægt að sigra með uppgjafartökum og á stigum.

Í tilkynningu frá Mjölni segir að Mjölnir Open sé elsta BJJ-mót landsins enda hefur það verið haldið árlega frá árinu 2006, að undanskildu árinu 2020 þegar kórónuveirufaraldurinn kom í veg fyrir mótahald. Um er að ræða eitt stærsta mót landsins í brasilísku jiu-jitsu.

Keppendurnir 92 sem eru skráðir til leiks koma frá átta félögum. Auk þess er mótið fjölþjóðlegt þar sem keppendur helgarinnar koma frá alls 15 löndum. Flestir af þeim eru búsettir á Íslandi og keppa fyrir íslensk félög.

Keppt er í fimm þyngdarflokkum karla og þremur kvenna auk opinna flokka.

Mótið er haldið í húsakynnum Mjölnis á Flugvallarvegi 3-3A í gömlu keiluhöllinni í Öskjuhlíð. Mótið hefst klukkan 11 á laugardaginn og stendur fram eftir degi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert