Þrír Íslendingar keppa í Póllandi

Íslendingarnir þrír sem keppa í Póllandi.
Íslendingarnir þrír sem keppa í Póllandi. Ljósmynd/Mjölnir

Þrír bardagamenn frá Mjölni berjast í Póllandi á laugardaginn. Strákarnir berjast í áhugamannabardaga í MMA á Contender Fight Night-kvöldinu.

Þetta verður í fyrsta sinn sem bardagamenn frá Íslandi keppa í MMA síðan í febrúar 2020. Þá kepptu þeir Krzysztof Porowski og Remek Duda Maríusson í Skotlandi fyrir hönd Reykjavík MMA en skömmu síðar skall kórónuveiran á og hefur lítið verið um MMA-bardaga í Evrópu fyrir utan þessi stærstu bardagasamtök. Bardagarnir þrír eru því kærkomnir fyrir íslensku MMA-senuna.

Daniel Alot mætir Dawid Biedron í 68 kg hentivigt. Daniel er 3:1 sem áhugamaður en allir þrír sigrarnir eru eftir rothögg.

Bjarki Eyþórsson mætir Remigiusz Jablonski í 77 kg veltivigt. Bjarki er 1:0 sem áhugamaður í MMA en hans fyrsti bardagi var í september 2017 þar sem hann sigraði með hengingu í 1. lotu. Síðan þá hefur Bjarki átt erfitt með að fá bardaga, glímt við meiðsli og missti bardaga vegna kórónuveirunnar í fyrra. Nú fær hann loksins tækifæri til að berjast aftur og verður gaman að fylgjast með honum á laugardaginn.

Aron Franz Bergmann Kristjánsson keppir sinn fyrsta MMA-bardaga um helgina þegar hann mætir Michal Oleksy í 66 kg fjaðurvigt. Aron hefur æft MMA í u.þ.b. tvö ár og tók sinn fyrsta hnefaleikabardaga á dögunum.

Bardagarnir fara fram á Contender Fight Night í Póllandi á laugardaginn og hefst fyrsti bardagi kl. 16:00 á íslenskum tíma. Samkvæmt mótshöldurum verður streymt frá bardögunum á Youtube-síðu þeirra hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert