„Ég vil sjá Conor rota hann“

Conor McGregor og Gunnar Nelson eru góðir félagar.
Conor McGregor og Gunnar Nelson eru góðir félagar. Ljósmynd/Skjáskot

Bardagakappinn Gunnar Nelson kveðst spenntur fyrir bardaga hins írska Conors McGregors og Bandaríkjamannsins Dustins Poiriers á UFC 264 í blönduðum bardagalistum í kvöld.

„Ég held með mínum manni auðvitað. Ég vil sjá Conor rota hann í fyrstu tveimur lotunum, helst í 2. eða 3. lotu. Mig langar ekki að þetta verði bara eitt högg og rothögg.

Ég væri til í að sjá smá góðan bardaga þeirra á milli, sjá Conor vera búinn að leysa úr flækjunum sem voru síðast og ég held að hann nái að klára þetta í 1. eða 2. lotu,“ sagði Gunnar í samtali við MMA-fréttir.

„Ég hlakka mest til að sjá fyrstu sekúndurnar til að sjá hvernig Conor mun spila þetta og hreyfa sig. Þetta mun velta mikið á því. Ef þetta dregst of mikið á langinn þá finnst mér eins og það sé klárlega Poirier í vil,“ bætti hann við.

Gunnar sagði að McGregor þyrfti að passa sig að berjast ekki eins og hann gerði í síðasta bardaga sínum, sem var einmitt gegn Poirier í janúar síðastliðnum. Þá vann Bandaríkjamaðurinn með tæknilegu rothöggi, sem er jafnframt í fyrsta og eina skiptið sem McGregor hefur verið rotaður á ferli sínum í UFC.

„Ég er á því að ef hann kemur núna og verður með jafnmikinn boxstíl og síðast þá séu það mistök. Ég vil sjá Conor eins og hann var, meira „elusive“ og með þessa karatestöðu. Þá er bæði erfiðara að slá hann og það hentar hans stíl og karakter.

Hann er með rosa góð „counter“, hann er snöggur inn og snöggur að koma sér til baka líka, mjög fljótur að refsa mönnum þegar þeir vaða inn í hann. Þá er erfiðara að sparka í hann líka. Væri líka til í að sjá hann nota spörkin sín meira,“ sagði Gunnar.

Bardaginn milli McGregors og Poiriers er aðalbardagi kvöldsins og er reiknað með að hann hefjist á milli klukkan 3:30 og 4:30 í nótt.

Viðtalið við Gunnar í heild sinni, þar sem hann fer mjög ítarlega yfir bardagann, má lesa á síðu MMA-frétta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert