Einn sigur og tvö töp í Póllandi

Íslendingarnir þrír sem kepptu í Póllandi.
Íslendingarnir þrír sem kepptu í Póllandi. Ljósmynd/Mjölnir

Þrír bardagamenn frá Mjölni börðust í Póllandi í gær. Um var að ræða áhugamannabardaga í blönduðum bardagalistum á Cont­end­er Fig­ht Nig­ht-kvöld­inu og var uppskeran einn sigur og tvö töp.

Daniel Alot vann sinn bardaga gegn Dawid Biedron í 68 kg hentivigt með hengingu, „rear naked choke“, í annarri lotu.

Bjarki Eyþórsson þurfti að lúta í lægra haldi gegn Remigiusz Jablonski í 77 kg veltivigt. Jablonski náði hásparki og lét svo höggin dynja á Bjarka á gólfinu sem leiddi til þess að dómarinn stöðvaði bardagann í lok 1. lotu.

Þá mætti Aron Franz Bergmann Kristjánsson Michal Oleksy í 66 kg fjaðurvigt. Um fyrsta bardaga Arons Franz var að ræða og fór hann alla leið í þriðju lotu, og þurfti að skera úr um sigurvegara að henni lokinni.

Oleksy vann að lokum eftir klofna dómaraákvörðun í æsispennandi bardaga.

mbl.is