„Getur fagnað þessum ólögmæta sigri eins og þú vilt“

Conor McGregor í bardaganum gegn Dustin Poirier aðfaranótt sunnudags.
Conor McGregor í bardaganum gegn Dustin Poirier aðfaranótt sunnudags. AFP

Conor McGregor segir sigur Dustins Poirier gegn sér í aðalbardaga UFC 264 í blönduðum bardagalistum í Las Vegas aðfaranótt sunnudags ekki hafa átt að telja.

Írinn fótbrotnaði áður en Poirier var dæmdur sigur á tæknilegu rothöggi undir lok fyrstu lotu.

„Dustin, þú getur fagnað þessum ólögmæta sigri eins og þú vilt en þú gerðir ekkert. Í annarri lotu hefði það komið glögglega í ljós,“ sagði McGregor í myndskeiði sem hann birti í nótt.

Fyrr í myndskeiðinu sagði hann aðgerðina sem hann gekkst undir í Las Vegas í gær hafa gengið eins vel og hægt hafi verið að vonast til.

„Allt gekk samkvæmt áætlun og mér líður frábærlega. Ég verð á hækjum í sex vikur og svo hefst endurhæfing,“ sagði McGregor jákvæður og hélt áfram:

„Þetta var svakaleg fyrsta lota og það hefði verið gott að fara í aðra lotu og sjá hvað myndi gerast en svona er þetta. Hreint brot á sköflungi og þessu var ekki ætlað að verða.

En við höldum áfram, byggjum okkur upp og komum til baka betri en nokkru sinni fyrr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert