Með fjölda álagsbrota áður en sköflungurinn brotnaði

Conor McGregor á börum eftir að hann fótbrotnaði um síðustu …
Conor McGregor á börum eftir að hann fótbrotnaði um síðustu helgi. AFP

Írski bardagakappinn Conor McGregor hefur greint frá því að hann hafi verið meiddur þegar hann barðist við Bandaríkjamanninn Dustin Poirier í UFC í blönduðum bardagalistum um síðustu helgi og fótbrotnaði.

McGregor kvaðst hafa átt í vandræðum með ökklann á sér um nokkurt skeið og hafi verið með álagsbrot á sköflungnum sem svo brotnaði í bardaganum.

„Það eru allir að spyrja mig hvenær nákvæmlega sköflungurinn brotnaði. Spyrjiið Dana White [forseta UFC], spyrjið UFC, spyrjið [Jeffrey] Davidson, yfirlækni UFC. Þeir vissu að ég væri með nokkur álagsbrot á sköflungnum þegar ég fór inn í búrið.

Það var rætt um að ég myndi segja mig frá bardaganum því ég var að æfa án legghlífa og sparkaði í hné æfingafélaga míns nokkrum sinnum, þannig að ég var með fjölda álagsbrota á sköflungunum fyrir ofan ökklann,“ sagði hann í myndskeiði á Instagramaðgangi sínum.

mbl.is