Mikael Leó í átta manna úrslit á heimsbikarmótinu

Mikael Leó Aclipen (t.v.) hafði betur gegn Vadym Kornelishyn í …
Mikael Leó Aclipen (t.v.) hafði betur gegn Vadym Kornelishyn í dag. Ljósmynd/Ásgeir Marteinsson

Mikael Leó Aclipen komst áfram í átta manna úrslit á heimsbikarmóti áhugamanna í blönduðum bardagalistum í Prag í Tékklandi í dag. Aron Franz Bergmann keppti einnig í dag en þurfti að sætta sig við tap.

Fyrsti keppnisdagur var á dagskrá í dag og kepptu þeir Mikael Leó og Aron Franz, sem báðir keppa fyrir hönd Mjölnis, í 18-21. árs flokki, svokölluðum „junior“ flokki. Mikael Leó er 18 ára gamall og Aron Franz er tvítugur.

Heimsbikarmótið er haldið af alþjóða MMA sambandinu (IMMAF).

Í tilkynningu frá Mjölni er greint frá því að Mikael Leó keppi í -61 kílógramma bantamvigt og að hann hafi mætt Vadym Kornelishyn frá Úkraínu í fyrsta bardaga dagsins.

Kornelishyn þessi er nýkrýndur Evrópumeistari í combat sambó og því ljóst að um sterkan andstæðing yrði að ræða. Mikael Leó var þó hvergi banginn og hafði betur eftir dómaraákvörðun.

Líklega tapaði hann fyrstu lotu en var með yfirhöndina í annarri og þriðju lotu. Sigurinn því sanngjarn og frækinn og Mikael Leó þar með kominn áfram í átta manna úrslit sem fara fram á morgun.

Í þeim mun hann mæta Slóvakanum Marek Zachar, sem sat hjá í fyrstu umferð mótsins í dag.

Bardaga Mikaels Leós má sjá í heild sinni hér.

Aron Franz mætti Fabian Ufs frá Noregi í 66 kílógramma fjaðurvigt. Aron Franz komst í góða stöðu á gólfinu en Ufs náði armlás af bakinu og neyddist Aron Franz því að tappa út strax þegar aðeins ein mínúta var liðin af bardaganum.

Þátttöku Arons Franz er þar með lokið á heimsbikarmótinu.

Aron Franz Bergmann (rauðklæddur) tapaði bardaga sínum.
Aron Franz Bergmann (rauðklæddur) tapaði bardaga sínum. Ljósmynd/Ásgeir Marteinsson
mbl.is