Óvæntustu úrslit ársins

Julianna Pena fagnar fræknum sigri sínum gegn Amöndu Nunes í …
Julianna Pena fagnar fræknum sigri sínum gegn Amöndu Nunes í nótt. AFP

Í nótt mættust þær Amanda Nunes og Julianna Pena í titilbardaga bantamvigtar kvenna í UFC í blönduðum bardagalistum. Óhætt er að segja að úrslit bardagans hafi verið óvænt.

Nunes, sem var að verja beltið sitt í bantamvigt, var talin umtalsvert sigurstranglegri fyrir bardagann á UFC 269 í Las Vegas í Bandaríkjunum í nótt enda ein fremsta bardagakona í sögu íþróttarinnar.

Hún byrjaði enda vel og kýldi Pena niður í fyrstu lotu. Nunes hélt Pena niðri út lotuna og reyndi uppgjafartök á milli þess sem hún lenti höggum en náði þó ekki að neyða Pena í uppgjöf áður en flautan gall.

Í annarri lotu náði Pena góðum stungum og hófu hún og Nunes fljótt að skiptast á höggum í búrinu. Báðar voru að lenda höggum en Nunes byrjaði að bakka. Pena náði góðu kasti upp við búrið, örþreytt Nunes gaf á sér bakið og læsti Pena hengingunni. Nunes tappaði út og Pena er því nýr meistari í UFC í bantamvigt kvenna.

mbl.is