Vildi ekki strá salti í sárin

Julianna Pena vann gífurlega óvæntan sigur gegn hinum margfalda meistara …
Julianna Pena vann gífurlega óvæntan sigur gegn hinum margfalda meistara Amöndu Nunes. AFP

Bardagakonan Julianna Pena kom gífurlega á óvart þegar hún lagði margfaldan meistara í bantamvigt kvenna í UFC í blönduðum bardagalistum, Amöndu Nunes, um þarsíðustu helgi og tryggði sér þannig meistaratitilinn.

Pena virtist lítið um það gefið þegar dómari bardagans gaf merki um að hún væri búin að tryggja sér óvæntasta sigur ársins í UFC og fagnaði lítið sem ekkert. Á hnjánum faðmaði hún Nunes og hélt í sitt horn í búrinu.

„Þegar maður tapar er það mjög dapurlegur dagur fyrir andstæðinginn. Ég vildi ekki nudda henni of mikið upp úr sigri mínum.

Ég var ekki að fara að strá salti í sárin,“ sagði Pena í samtali við BBC Sport, spurð hvernig hún hafi getað verið svona róleg eftir að hún vann þennan frækna sigur.

Nunes er ein besta bardagakona í sögu UFC enda unnið eða varið titla sína átta sinnum. Pena vildi því sýna henni þá virðingu sem hún ætti skilið.

„Amanda er búin að vera svo góður meistari í svo mörg ár og ég vildi ekki sýna henni vanvirðingu. Fyrir mér get ég fagnað fyrir luktum dyrum. Þetta er ekkert persónulegt og hefur aldrei verið,“ sagði Pena.

Hinn nýkrýndi meistari í bantamvigt sagði þó að þegar hún hélt baksviðs eftir bardagann hafi það dagað á hana hversu magnað afrek sitt væri.

„Maður er strax tekinn á bak við tjaldið þar sem maður klæðir sig og skoðaður af lækni. Á því augnabliki brotnaði ég niður. Ég einfaldlega hágrét. Ég þurfti bara að losa um þetta, þurfti að koma þessu út.

Ég var bara svo ánægð að þetta væri loksins búið og ég er viss um að henni hafi liðið eins. Að þungri byrði hafi verið létt af henni. Þegar allt kemur til alls getur maður andað á ný og þetta var augnablikið þar sem ég gat andað,“ bætti Pena við.

mbl.is