Vísa Rússum og Hvít-Rússum úr sambandinu

Rússar hafa verið sérlega áberandi í MMA undanfarin ár.
Rússar hafa verið sérlega áberandi í MMA undanfarin ár. Iceland Monitor/Ómar Óskarsson

Alþjóða MMA sambandið, IMMAF, hefur vísað Rússum og Hvít-Rússum úr sambandinu en báðar þjóðir, ekki síst rússneska MMA-sambandið, hafa verið mjög áberandi í keppnum innan IMMAF og í störfum sambandsins.

IMMAF sendi frá sér tilkynningu þegar í stað þann 25. Febrúar, fyrsta dag innrásar Rússlands í Úkraínu, þar sem lýst var yfir stuðningi við Úkraínu.

Í gær tilkynnti IMMAF svo um brottvikningu Rússa og Hvít-Rússa, bæði með bréfi til aðildarsambanda IMMAF og í tilkynningu á vef sambandsins.

Þá sendi IMMAF einnig frá sér bréf þar sem þetta var áréttað og að Rússum og Hvít-Rússum væri meinuð þátttaka á MMA Ofurbikarmótinu sem fram fer í Barein í næstu viku, dagana 8.-12. mars.

Alþjóða MMA sambandið var stofnað árið 2012 og í dag eru aðildarlönd rúmlega 120.

mbl.is