„Þetta verður hörku andstæðingur“

Gunnar Nelson mætir Takashi Sato þann 19. mars á UFC-kvöldi …
Gunnar Nelson mætir Takashi Sato þann 19. mars á UFC-kvöldi í London. mbl.is/Snorri Björns

Næstkomandi laugardag mun Gunnar Nelson mæta aftur í búrið eftir tveggja ára fjarveru þar sem hann mun berjast gegn Takashi Sato á UFC-kvöldi í London.

„Þetta verður hörku andstæðingur,“ segir Haraldur Dean Nelson, faðir Gunnars, í samtali við mbl.is. Undirbúningur Gunnars fyrir bardagakvöldið tók mið af ólíkum andstæðingi, en upphaflega stóð til að Gunnar myndi mæta Brasilíumanninum Claudio Silva. Vegna meiðsla dró hann sig úr fyrirhugðum bardaga gegn Gunnari og var Sato fenginn í hans stað. 

„Við erum búnir að vera að undirbúa okkur fyrir aðeins öðruvísi bardagamann, Claudio Silva, sem síðan breyttist þegar hann meiðist tveim vikum fyrir bardagann og Takashi Sato kemur inn í staðinn,“ segir Haraldur, sem bætir við að „hinn var meiri glímumaður en að Sato sé aðallega „stand-up fighter“, þó að hann hafi svarta beltið í júdó.“ Sato hefur klárað 11 bardaga með rothöggi og er því hættulegur standandi að sögn Haralds.

Aðspurður hvort hann hafi áhyggjur vegna þessara breytinga segir Haraldur hins vegar að þeir hafi litlar áhyggjur þrátt fyrir að Sato sé öflugur andstæðingur. „Þetta verður spennandi. Þessi andstæðingur er miklu hraðari en Claudio Silva og er „stander.“ Hann er einnig tveim árum yngri en Gunni og sjálfur segist Sato vera í besta formi ferils síns.“

Gunnar kláraði síðustu æfinguna sína í gær og lagði af stað út til London nú í morgun. Fjöldi af íslendingum verða viðstaddir bardagann honum til stuðnings en Haraldur segir að hann viti til um 200 manns sem munu fylgjast með bardaganum í London þann 19. mars.

mbl.is