Jón Margeir: Gullið fær sinn vegg

Jón Margeir Sverrisson sagðist ekki alveg vera búinn að ákveða hvar hann myndi geyma níðþungan en glæsilegan gullverðlaunapeninginn sem hann fékk fyrir sigur í 200 metra skriðsundi á Ólympíumóti fatlaðra í London í kvöld. Hann myndi þó eflaust fá sinn vegg.

Jón Margeir vann á glæsilegu heimsmeti eftir æsispennandi baráttu við Ástralann Daniel Fox en verðlaunahafarnir þrír syntu allir undir tveimur mínútum.

Jón Margeir hélt furðuvel andliti í viðtali við mbl.is en gat ekki haldið aftur af tilfinningunum þegar hann hitti fjölskyldu sína fyrir utan sundhöllina og brast í grát líkt og fleiri. Hann hefur nú sett stefnuna á að komast á Ólympíuleika ófatlaðra í Ríó eftir fjögur ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina