Mest spennandi að sjá Íslendingana

Eygló Ósk Gústafsdóttir var kjörin íþróttamaður ársins 2015.
Eygló Ósk Gústafsdóttir var kjörin íþróttamaður ársins 2015. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Eygló Ósk Gústafsdóttir keppir á sínum öðrum Ólympíuleikum í Ríó, eftir að hafa 17 ára gömul farið á Ólympíuleikana í London árið 2012.

Eygló er 21 árs gömul, dóttir Guðrúnar Gerðu Sigurþórsdóttur og Gústafs Adólfs Hjaltasonar. Eygló er úr mikilli sundfjölskyldu og á Íslandsmet í tveimur boðsundsgreinum með Jóhönnu Gerðu systur sinni, og þeim Sigrúnu Brá Sverrisdóttur og Söruh Blake Bateman.

Eygló Ósk stingur sér til sunds í undanrásum 100 metra …
Eygló Ósk stingur sér til sunds í undanrásum 100 metra baksunds á Ólympíuleikunum í Ríó. AFP

Eygló hefur tekið stór skref á ferlinum síðustu misseri og var kjörin íþróttamaður ársins í fyrra, en hún er aðeins fimmta konan í sögunni sem hlýtur þá nafnbót. Þessi heiður hlotnaðist henni eftir að hún varð fyrst íslenskra sundkvenna til að vinna til verðlauna á stórmóti, en Eygló fékk tvenn bronsverðlaun á EM í 25 metra laug í Ísrael í desember, í 100 og 200 metra baksundi. Áður hafði hún fjórbætt Norðurlandametið í 200 metra baksundi og orðið fyrsta íslenska sundkonan til að komast í úrslit á HM í 50 metra laug. Það gerði hún í 200 metra baksundi í Kazan í Rússlandi fyrir ári síðan.

Í ár varð Eygló svo í 6. sæti í 100 og 200 metra baksundi á EM í 50 metra laug. Á Ólympíuleikunum í London árið 2012 var hún nálægt því að komast í undanúrslit í 200 metra baksundi en hafnaði í 20. sæti. Hún komst hins vegar í undanúrslit í 100 metra baksundi í Ríó á sunnudaginn og endaði í 14. sæti. Eygló keppir einnig í 200 metra baksundi á leikunum.

Eygló á verðlaunapallinum á EM í 25 metra laug í …
Eygló á verðlaunapallinum á EM í 25 metra laug í desember, ásamt járnfrúnni Katinku Hosszú frá Ungverjalandi og Dariu Ustinova frá Rússlandi. AFP

 Eygló hefur verið valin sundkona ársins af Sundsambandi Íslands fimm ár í röð. Hún er margfaldur Íslands- og bikarmeistari og er í dag handhafi Íslandsmeta í fjórum greinum í 50 metra laug (200 m skriðsundi og 50, 100 og 200 m baksundi), auk tveggja boðsunda (4x100 m skriðsundi og 4x200 m skriðsundi).

Nám: Ég kláraði FB í fyrra og er að hugsa um að fara í háskólanám í janúar eða eftir ár.
Fyrri störf: Ég hef unnið sem sundþjálfari, ég bar út Moggann þegar ég var krakki, og svo var ég einu sinni að vinna á Wilson's. Þar var ég að gera pítsur og hamborgara og svona, sem hentaði alls ekkert vel með sundinu. Ég bætti á mig dálítið mörgum kílóum þar.
Uppáhaldsmatur: Grillmatur hjá pabba. Það toppar ekkert grillmatinn hans á föstudögum.
Mest spennandi á ÓL, fyrir utan sund: Ég er fyrst og fremst spennt að sjá hina Íslendingana keppa, og ég verð hérna alveg fram að lokahátíðinni. Ég ætla að reyna að sjá sem mest. Mig langar á Copacabana að sjá strandblakið, að sjá handbolta, körfubolta og ýmislegt fleira.

Dagskrá Eyglóar í Ríó:
14. sæti í 100 metra baksundi
200 m baksund, undanrásir: 11. ágúst kl. 17.36
200 m baksund, undanúrslit: 11. ágúst kl. 1.35 (í raun 12. ágúst)
200 m baksund, úrslit: 12. ágúst kl. 1.03 (í raun 13. ágúst)

Eygló var aðeins 17 ára gömul þegar hún keppti á …
Eygló var aðeins 17 ára gömul þegar hún keppti á Ólympíuleikunum í London. mbl.is/Golli
Eygló var snemma farin að safna verðlaunum og hér er …
Eygló var snemma farin að safna verðlaunum og hér er hún með silfurverðlaun sín úr 200 metra baksundi á Evrópumóti unglinga sumarið 2011.
mbl.is