„Ég er himinlifandi“

Dagur Sigurðsson með ábendingu til dómara í sigri Þýskalands á …
Dagur Sigurðsson með ábendingu til dómara í sigri Þýskalands á Katar á Ólympíuleikunum í Ríó í dag. AFP

„Ég er himinlifandi. Það er gríðarlega mikill munur á því að komast í undanúrslit á Ólympíuleikum og að falla út í 8-liða úrslitum,“ sagði Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska karlalandsliðsins í handbolta, við mbl.is eftir sigurinn á Katar á Ólympíuleikunum í Ríó í dag.

Þjóðverjar, sem urðu Evrópumeistarar undir stjórn Dags í byrjun árs, eru því komnir í undanúrslit þar sem þeir mæta ríkjandi ólympíu- og heimsmeisturum Frakka. Sigurinn á Katar var afar öruggur, eða 34:22.

„Við duttum inn á mjög góðan leik, bæði hvað varnarleik og markvörslu varðar. Við vissum að þeir myndu ekki keyra hraðaupphlaup, þeir hafa verið að spila svona göngubolta, og því leyfðum við okkur að skipta tveimur leikmönnum á milli varnar og sóknar. Þannig gátu ungu, hröðu strákarnir spilað og þeir áttu í erfiðleikum með þá,“ sagði Dagur.

Ættum að geta veitt Frökkum keppni

„Heilt yfir vorum við með stjórn á þeim allan leikinn, og eftir einhverjar tíu mínútur í seinni hálfleik þá hættu þeir bara. Þeir höfðu ekki kraftinn til að berjast tilbaka og því endaði þetta eins og það gerði,“ bætti hann við. Þó að Dagur væri himinlifandi var ekki annað að sjá en að hann væri pollrólegur yfir árangrinum hingað til.

„Auðvitað langar mann í meira núna, það eru bara þrjú sæti sem gefa medalíu og eitt gull í boði. Við erum að fara að fá mjög sterkan mótherja, svo þetta verður erfitt, en ég er ánægður með að við skyldum komast nokkuð meiðslalaust í gegnum þetta og ættum að geta veitt Frökkum keppni,“ sagði Dagur, sem mun nú leggjast yfir það með sínum aðstoðarmönnum hvernig best verður að eiga við Frakkana:

„Ég er eiginlega ekkert búinn að fylgjast með þeim hérna og varla búinn að sjá þá, nema aðeins á móti Katar sem við vorum að greina. Nú fer þessi vinna í gang.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert