Hef verið svolítið þekktur fyrir þetta

Guðmundur Guðmundsson fékk faðmlag frá Casper Mortensen eftir að sigurinn …
Guðmundur Guðmundsson fékk faðmlag frá Casper Mortensen eftir að sigurinn var í höfn, og þar með einnig sæti Danmerkur í undanúrslitum Ólympíuleikanna. AFP

„Við förum heim núna eins fljótt og við getum að undirbúa okkur fyrir næsta verkefni. Þetta eru þrælabúðir,“ sagði Guðmundur Guðmundsson og hló, léttur í bragði eftir að hafa stýrt Danmörku í undanúrslit handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í Ríó.

Danmörk vann öruggan sigur á Slóveníu í 8-liða úrslitum í kvöld, 37:30. Þar með er ljóst að Danir spila um verðlaun á leikunum en þeir hafa aldrei í sögunni unnið til verðlauna á Ólympíuleikum.

„Mér líður frábærlega með þetta. Það er rosalega stór áfangi að komast í undanúrslit, en núna bíður okkar stór veggur að klífa að komast í úrslitin. Ég hef prófað það með íslenska landsliðinu og hlakka til að takast á við það,“ sagði Guðmundur.

Einum leik er ólokið í 8-liða úrslitum en þar mætast Pólland og Króatía. Danmörk mætir sigurliðinu í undanúrslitum á föstudag. Þá mætast einnig Frakkland og Þýskaland, undir stjórn Dags Sigurðssonar.

„Við mætum mjög líklega Króötum, og þeir hafa verið að spila frábærlega. En við spiluðum líka stórkostlegan handbolta í dag. Við spiluðum frábæra vörn, fengum ekki þá markvörslu sem við vonuðumst eftir í byrjun, en svo fór allt að smella þegar Jannick  [Green] kom inná,“ sagði Guðmundur.

Frábært að fylgjast með liðinu

„Vörnin var öflug gegn mjög erfiðu sóknarliði, og í sókninni spiluðum við frábæran handbolta. Þetta var mjög fjölbreytilegur handbolti hjá okkur, þar sem við leystum allt mjög vel; gegn agressívri 3-2-1 vörn, gegn 6-0 vörn, og líka þegar þeir fóru í að taka tvo úr umferð. Við héldum alltaf áfram að skora og spila vel. Það var frábært að fylgjast með liðinu,“ sagði Guðmundur. Hann var eins og áður segir ánægður með innkomu markvarðarins Jannick Green:

„Hann spilaði stórkostlegan leik,“ sagði Guðmundur, sem lét Green samt heyra það á einum tímapunkti í leiknum, þegar honum fannst markvörðurinn geta gert betur. Segja má að í því hafi kristallast eindreginn vilji þjálfarans til þess að leikmenn haldi einbeitingu allar 60 mínútur leiksins:

„Jú, jú,“ sagði Guðmundur og brosti. „Ég hef nú verið svolítið þekktur fyrir þetta. Leikurinn er ekkert búinn fyrr en hann er búinn og menn verða að halda áfram. En maður er kannski stundum aðeins [...]“ sagði Guðmundur og brosti áfram, án þess að klára setninguna. Hann var léttur í bragði á meðan að hann ræddi við undirritaðan, en á meðan á leik stóð vantaði ekki áhyggjusvipinn, jafnvel þegar Danir voru komnir í mjög góða stöðu. Nær Guðmundur eitthvað að njóta þess að vera á hliðarlínunni á meðan á leik stendur?

„Já og nei. Þetta er hörkuvinna og aldrei búið fyrr en það er búið. Maður er glaður í hjarta sínu þegar leikurinn er flautaður af en mér finnst leikirnir aldrei vera búnir fyrr en flautan gellur. Það getur allt gerst og 6-7 marka munur þegar 10 mínútur eru eftir getur auðveldlega horfið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert