Rosalega gaman að fá metið

Aníta Hinriksdóttir tekur í spaðann á Noelie Yarigo frá Benín …
Aníta Hinriksdóttir tekur í spaðann á Noelie Yarigo frá Benín eftir hlaupið á Ólympíuleikunum í Ríó. AFP

„Þetta var svona frekar jákvæð reynsla heldur en ekki, á fyrstu Ólympíuleikum. Maður var hræddur um að spennan færi með mann en það var rosalega gaman að fá metið,“ sagði Aníta Hinriksdóttir, eftir að hafa keppt í 800 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Ríó í dag.

Aníta bætti þriggja ára gamalt Íslandsmet sitt með því að hlaupa á 2:00,14 mínútum. Hún varð í 6. sæti í sínum riðli í undanrásunum, og átti 20. besta tímann í öllum átta riðlum undanrásanna. Hún var aðeins 14/100 úr sekúndu frá því að komast í undanúrslitin, en þangað fóru tveir fyrstu keppendur í hverjum riðli auk þeirra átta sem náðu bestum tíma þar á eftir.

„Það er gaman að upplifunin sé svona, fyrir næstu Ólympíuleika. Nú vill maður meira. Það kemur strax einhver andi yfir mann og vonandi helst hann sem lengst,“ sagði Aníta.

„Maður var alveg búinn að búa sig undir að þetta yrði rosalega óraunverulegt, en ég var einbeittari og ákveðnari en ég hélt. Mér tókst að halda því, og er fegin að metið sé í höfn. Vonandi er eitthvað enn meira á leiðinni,“ sagði Aníta. Tími hennar hefði á öðrum degi getað dugað til að komast í undanúrslitin:

„Maður hefði jafnvel haldið það [að þessi tími dygði]. Þetta hefði dugað á HM í fyrra. Núna var eins og að það væri alltaf að minnsta kosti ein í hverjum riðli sem vildi keyra upp hraðann,“ sagði Aníta.

„Voru allar að gelta á þetta í dag“

„Fyrstu viðbrögð voru að vera ánægð með að bæta sig, en svo voru þær bara allar til í að „gelta á þetta“ í dag. Maður var vongóður fyrst, en svo sá maður góða tíma hrúgast inn. Maður átti ekkert endilega von á því,“ bætti hún við. Hún segist eiga meira inni og vill sýna það áður en keppnistímabilinu lýkur:

„Ég gerði kannski aðeins taktískt mistök en ég held að það geti allar sagt að þær hafi gert eitthvað rangt. Maður hefði viljað vera meira með hópnum þegar það voru 200 metrar eftir, því fylgir meira blóð á tennurnar og meiri andi. Maður þurfti að reyna að nálgast þær en lokaðist aðeins af fyrir aftan þessa þýsku,“ sagði Aníta.

„Ég hugsa að fyrst þetta er svona á réttri leið þá vilji maður reyna að fá tvö mót í viðbót á þessu ári. Ég vonast til að ná einu hlaupi þar sem að maður „tekur allt úr sér“. Þetta var ekki alveg þannig í dag,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert