Stórsigur Þjóðverja

Dagur Sigurðsson stýrir þýska landsliðinu í dag gegn Katar.
Dagur Sigurðsson stýrir þýska landsliðinu í dag gegn Katar. AFP

Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í þýska landsliðinu í handknattleik karla  tryggðu sér sæti í undanúrslitum handknattleikskeppni Ólympíuleikanna með stórum sigri á landsliði Katar, 34:22, í dag. Þjóðverjar mæta Frökkum í undanúrslitum á föstudag en Frakkar voru fyrstir í undanúrslit eftir að þeir unnu Brasilíumenn, 34:27, fyrr í dag.

Katarbúar héldu í við Evrópumeistara Þjóðverja framan af fyrri hálfleik en þegar á leið  skildu leiðir og Þjóðverjar voru með fjögurra marka forskot í hálfleik, 16:12. Nánast var um einstefnu að ræða í síðari hálfleik. Þýska liðið var með átta marka forskot  um miðjan hálfleikinn og jók forystu sína allt til leiksloka. 

Fabian Wiede, Tobias Reichmann og Uwe Gensheimer skoruðu fimm mörk hver og voru markahæstir Þjóðverja. Rafael Capote skoraði níu mörk fyrir Katar-liðið.

Í kvöld leikur danska landsliðið, undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar, við Slóvena.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert