Eitt rétt skref í viðbót

Aníta Hinriksdóttir glöð í bragði og tekur í höndina á …
Aníta Hinriksdóttir glöð í bragði og tekur í höndina á Noelie Yarigo frá Benín eftir að þær komu í mark eftir að hafa hlaupið í undanrásum í gær. Aníta bætti Íslandsmet sitt en Yarigo tókst að tryggja sér sæti í undanúrslitum. AFP

Aníta Hinriksdóttir virtist njóta sín vel á sínum fyrstu Ólympíuleikum þegar hún hljóp í undanrásum 800 metra hlaups í Ríó í gær. Hún bætti þriggja ára gamalt Íslandsmet sitt um 35 sekúndubrot með því að hlaupa á 2:00,14 mínútum. Það var 20. besti tíminn í undanrásunum en dugði þó ekki til að koma Anítu í 24 manna undanúrslitin.

Ástæðan er sú að aðeins tveir fyrstu keppendur í hverjum riðli af átta komust áfram, auk átta keppenda til viðbótar sem náðu bestum tíma þar fyrir utan. Keppendur í riðli Anítu hlupu hraðast allra og varð hún í 6. sæti í honum. Ef horft er á tíma þeirra sem ekki lentu í 1. eða 2. sæti í sínum riðli átti Aníta 10. besta tímann af þeim, og var aðeins tveimur sætum frá því að komast í undanúrslit, eða 14/100 úr sekúndu. Fimm fyrstu í hennar riðli komust áfram.

„Ég er rosalega stoltur af því að Aníta skyldi bæta sig og setja Íslandsmet á sínum fyrstu Ólympíuleikum, við þessar aðstæður. En ég veit líka, miðað við æfingar og annað, hvað býr í henni og að hún getur hlaupið enn hraðar en þetta,“ sagði Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu, við Morgunblaðið eftir hlaupið.

„Það er afskaplega misjafnt hvort einhver í riðlinum vill taka af skarið og hlaupa hratt. Í sumum riðlunum tók engin af skarið og þar duttu út mjög sterkir keppendur. Aníta lenti í mjög hröðu hlaupi, eins og voru í nokkrum riðlum, og upp á það að ná metinu var það mjög gott,“ sagði Gunnar Páll, sem er sannfærður um að Aníta geti hlaupið vel undir tveimur mínútum, og vonast til að þessi tvítugi ÍR-ingur sýni það áður en keppnistímabilið er úti.

Sjá viðtal við Gunnar Pál í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert