Lék sama leik og Flo-Jo

Elaine Thompson virtist hálfbrugðið þegar hún sá loks á skjánum …
Elaine Thompson virtist hálfbrugðið þegar hún sá loks á skjánum að hún hefði orðið ólympíumeistari í 200 metra hlaupi. AFP

Elaine Thompson skráði sig í sögubækurnar í nótt þegar hún undirstrikaði að hún er fljótasta kona heims, á Ólympíuleikunum í Ríó.

Thompson vann sigur í 200 metra hlaupi í nótt, en hún hafði áður unnið 100 metra hlaupið. Þessi jamaíska hlaupakona er sú fyrsta til að vinna bæði hlaupin á Ólympíuleikum síðan heimsmethafinn í báðum greinum, Florence Griffith-Joyner, gerði það árið 1988.

Thompson lék þannig sama leik og landi hennar Usain Bolt hefur gert á síðustu tvennum Ólympíuleikum, en Jamaíkumenn hafa raunar unnið 10 af 11 gullverðlaunum í 100 og 200 metra hlaupi karla og kvenna síðan árið 2008.

Thompson virtist ekki átta sig á sigri sínum fyrr en tímarnir í úrslitahlaupinu voru birtir á skjá á ólympíuleikvanginum. Þá fyrst fagnaði hún, en Thompson var fyrst allt hlaupið og kom í mark á 21,78 sekúndum. Dafne Schippers frá Hollandi var 10/100 úr sekúndu á eftir henni og náði í fyrstu ólympíuverðlaun Hollendinga í frjálsum íþróttum síðan árið 1992.

Gatlin komst ekki í úrslit

Í nótt komst Usain Bolt af öryggi áfram úr undanúrslitum 200 metra hlaups og hann getur því unnið til gullverðlauna í greininni næstu nótt, aðfaranótt föstudags, líkt og í 100 metra hlaupinu. Bandaríkjamaðurinn Justin Gatlin komst hins vegar óvænt ekki áfram, né heldur Yohan Blake, landi Bolts.

Þrefalt hjá Bandaríkjunum í grindahlaupi

Bandaríkin unnu hins vegar til fjölda verðlauna í nótt. Tianna Bartoletta varð ólympíumeistari í langstökki, með 7,17 metra stökki, en hún stökk 2 sentímetrum lengra en Brittney Reese, sem er einnig frá Bandaríkjunum. Ivana Spanovic frá Serbíu fékk brons með 7,08 metra stökki, sem er serbneskt met.

Bandaríkin unnu svo þrefaldan sigur í 100 metra grindahlaupi kvenna. Brianna Rollins var fyrst á 12,48 sekúndum. Nia Ali tók silfur og Kristi Castlin brons, á 12,61 sekúndum. Cindy Ofili frá Bretlandi var aðeins 2/100 úr sekúndu frá verðlaunasæti.

Dafne Schippers hrasaði yfir endalínuna þegar hún reyndi að komast …
Dafne Schippers hrasaði yfir endalínuna þegar hún reyndi að komast fram fyrir Elaine Thompson, sem hélt út og kom fyrst í mark. AFP
Usain Bolt komst af miklu öryggi í úrslit 200 metra …
Usain Bolt komst af miklu öryggi í úrslit 200 metra hlaups karla. AFP
Tianna Bartoletta varð ólympíumeistari í langstökki.
Tianna Bartoletta varð ólympíumeistari í langstökki. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert