Bolt undirstrikaði yfirburðina

Usain Bolt fagnaði eins og hann er vanur, eftir hlaup …
Usain Bolt fagnaði eins og hann er vanur, eftir hlaup sem að öllum líkindum var hans síðasta hlaup í einstaklingsgrein á Ólympíuleikum. AFP

Usain Bolt varð í nótt ólympíumeistari í 200 metra hlaupi. Hann hefur því unnið 100 og 200 metra hlaup á þrennum Ólympíuleikum í röð.

Bolt ætlar ekki að láta þar við sitja. Á síðustu tvennum leikjum hefur hann einnig unnið gull í 4x100 metra boðhlaupi með sveit Jamaíku, og það ætlar hann einnig að gera um helgina. Þannig næði hann í níu gullverðlaun af níu mögulegum á sínum ólympíuferli, og myndi jafna met Carl Lewis og Paavo Nurmi yfir flest ólympíugull í frjálsum íþróttum.

Bolt vann 200 metra hlaupið í nótt af miklu öryggi, þrátt fyrir að hann virtist ósáttur við að hafa ekki hlaupið hraðar, en hann kom í mark á 19,78 sekúndum. Andre de Grasse frá Kanada varð í 2. sæti og Frakkinn Christophe Lemaitre var manna glaðastur en hann náði bronsverðlaunum með miklum naumindum.

„Það að ég skuli hafa komið hingað og náð að gera nákvæmlega það sem ég ætlaði að gera er algjör snilld. Ég var ekki ánægður með tímann þegar ég komst yfir endalínuna en ég er hæstánægður með að fá gullverðlaunin. Það var lykilatriðið,“ sagði Bolt við BBC.

Sara Kolak var eldhress og fagnaði vel eftir að hafa …
Sara Kolak var eldhress og fagnaði vel eftir að hafa orðið ólympíumeistari í spjótkasti, aðeins 21 árs gömul. AFP

Ef horft er til heimsmeistaramóta og Ólympíuleika hefur Bolt nú unnið sjö mót í röð í 200 metra hlaupi, sem er einstakur árangur.

21 árs gamall Króati vann grein Ásdísar

Eins og flestum er eflaust ljóst komst Ásdís Hjálmsdóttir ekki áfram í 12 manna úrslit í spjótkasti, en úrslitin fóru fram í nótt. Sara Kolak frá Króatíu, sem er aðeins 21 árs gömul, varð ólympíumeistari en hún kastaði lengst 66,18 metra, sem er króatískt met. Sunette Viljoen frá Suður-Afríku fékk silfur með 64,92 metra kasti, og heimsmethafinn Barbora Spotakova frá Tékklandi tók bronsið, en hún kastaði 64,78 metra lengst.

Dalilah Muhammad frá Bandaríkjunum varð ólympíumeistari í 400 metra grindahlaupi kvenna á 53,13 sekúndum. Sara Slott Petersen frá Danmörku fékk silfur á nýju, dönsku meti, eða 53,55 sekúndum.

Eaton varði titilinn í tugþraut

Ashton Eaton frá Bandaríkjunum varði ólympíumeistaratitil sinn í tugþraut en það hefur enginn tugþrautarmaður gert síðan Daley Thompson gerði það árið 1984. Eaton setti ólympíumet með því að fá 8.893 stig. Kevin Mayer setti franskt met og varð í 2. sæti með 8.834 stig, aðeins 57 stigum á eftir Eaton.

Ryan Crouser varð svo ólympíumeistari í kúluvarpi karla, á nýju ólympíumeti, með 22,52 metra kasti. Joe Kovacs frá Bandaríkjunum kastaði 21,78 metra og varð í 2. sæti, og Tomas Walsh frá Nýja-Sjálandi fékk brons með 21,36 metra kasti.

Usain Bolt var vinsælasti maðurinn á ólympíuleikvanginum í Ríó, og …
Usain Bolt var vinsælasti maðurinn á ólympíuleikvanginum í Ríó, og er einn vinsælasti íþróttamaður heims. AFP
Sara Kolak fagnar sigurkasti sínu.
Sara Kolak fagnar sigurkasti sínu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert