Narcisse sendi Dag í bronsleikinn

Dagur Sigurðsson var ekki alltaf sáttur með danska dómaraparið í …
Dagur Sigurðsson var ekki alltaf sáttur með danska dómaraparið í leiknum við Frakka í Ríó í dag. AFP

Frakkland leikur til úrslita um ólympíumeistaratitilinn í handbolta karla eftir dramatískan sigur á lærisveinum Dags Sigurðssonar í þýska landsliðinu í kvöld, 29:28.

Daniel Narcisse, sem átti frábæran leik fyrir Frakka, skoraði sigurmarkið á lokasekúndu leiksins, eftir langa lokasókn Frakka. Því er ljóst að Dagur og hans menn munu leika um bronsverðlaun á sunnudaginn.

Seinni undanúrslitaleikurinn er á milli Póllands og Danmerkur, undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar, og hefst hann kl. 23.30 í kvöld.

Frakkar náðu frumkvæðinu snemma leiks í dag og voru 2-4 mörkum yfir stærstan hluta fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik var 16:13 fyrir Frakka.

Frakkar byrjuðu líka betur í seinni hálfleik. Þeir skoruðu meðal annars tvö mörk í autt markið þegar Þjóðverjar voru manni færri og skiptu markverði sínum út, og juku muninn í sjö mörk, 22:15, eftir tíu mínútur í seinni hálfleik. Thierry Omeyer, sem verður fertugur í lok árs, var Þjóðverjum oft erfiður með markvörslum sínum, sérstaklega á þessum kafla.

En Þjóðverjar gáfust ekki upp. Julius Kühn átti gríðarlega góða innkomu af bekknum og hann minnkaði muninn í tvö mörk með sínu sjöunda mark, 26:24, þegar enn voru átta mínútur eftir. Þá var komin mikil stemmning í þýska liðið sem og í Future Arena, fullri höllinni þar sem handboltakeppni Ólympíuleikanna fer fram.

Jöfnuðu metin mínútu fyrir leikslok

Þýskaland fékk þrjú tækifæri til að minnka muninn í eitt mark, þar af eitt dauðafæri Uwe Gensheimer sem Omeyer sá við, en munurinn fór svo niður í eitt mark, 27:26, þegar fjórar mínútur voru eftir. Kühn var þar enn á ferðinni.

Dagur tók leikhlé í stöðunni 28:26, þegar tvær mínútur og 40 sekúndur lifðu leiks. Tobias Reichmann breytti stöðunni í 28:27 þegar hann skoraði úr hraðaupphlaupi, og enn var nægur tími til stefnu. Reichmann jafnaði svo metin í 28:28, þegar mínúta var eftir.

Frakkar fengu þá mínútu alla í lokasókn sína, og skoruðu sigurmarkið á lokasekúndunni.

Narcisse var markahæstur Frakka með 7 mörk en Gensheimer fór á kostum fyrir Þjóðverja og skoraði 11 mörk úr 12 skotum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert