Bolt fullkomnaði ferilinn

Usain Bolt sveipaði um sig brasilíska fánanum eftir fullkominn árangur …
Usain Bolt sveipaði um sig brasilíska fánanum eftir fullkominn árangur á Ólympíuleikunum í Ríó. AFP

Usain Bolt vann til sinna níundu gullverðlauna á Ólympíuleikum þegar hann fagnaði sigri með sveit Jamaíku í 4x100 metra boðhlaupi í Ríó í nótt.

Þar með tókst Bolt ætlunarverk sitt, að vinna allar þrjár greinar sínar á leikunum, en hann hafði þegar orðið ólympíumeistari í 100 og 200 metra hlaupi. Þar með hefur hann unnið þessar þrjár greinar á þrennum Ólympíuleikum í röð, sem er eitthvað sem enginn hefur áður afrekað og óvíst er að nokkur muni leika eftir.

„Þar hafið þið það, ég er sá allra besti,“ sagði Bolt eftir sigurinn í nótt.

Bolt hafði áður gefið það út að þetta væru hans síðustu Ólympíuleikar og hann hefur því hlaupið sitt síðasta ólympíuhlaup, en þessi 29 ára gamli Jamaíkumaður ætlar að ljúka ferlinum með keppni á HM í frjálsum íþróttum á næsta ári.

Ásamt Bolt voru í sveit Jamaíku þeir Asafa Powell, Yohan Blake og Nickel Ashmeade. Sveitin hljóp á 37,27 sekúndum og var 33 sekúndubrotum á undan Japan. Kanada fékk bronsverðlaunin. Sveit Bandaríkjanna var dæmd úr leik, eftir að hafa komið þriðja í mark, en Mike Rodgers hafði komið keflinu til Justin Gatlin utan skiptisvæðis.

Bandaríska sveitin þakkaði fyrir sig með gulli

Bandaríkin unnu aftur á móti 4x100 metra boðhlaup kvenna, en ekki eru allir ánægðir með það að bandaríska sveitin skyldi fá að keppa. Þær Tianna Bartoletta, Allyson Felix, English Gardner og Tori Bowie hlupu á 41,01 sekúndu. Sveit Jamaíku var 35/100 úr sekúndu á eftir og Bretar fengu bronsverðlaunin.

Tianna Bartoletta, English Gardner, Tori Bowie og Allyson Felix komust …
Tianna Bartoletta, English Gardner, Tori Bowie og Allyson Felix komust bakdyramegin inn í úrslit en voru fljótastar allra þar. AFP

Vivian Cheruiyot frá Kenía vann 5 km hlaup kvenna á nýju ólympíumeti, eða 14:26,17 mínútum. Hellen Obiri, einnig frá Kenía, fékk silfur og Almaz Ayana frá Eþíópíu, ólympíumeistari í 10 km hlaupi, fékk brons.

Grískur sigur í spennandi stangarstökkskeppni

Ekaterini Stefanidi frá Grikklandi vann stangarstökk kvenna eftir æsispennandi keppni. Hún stökk yfir 4,85 metra líkt og Sandi Morris frá Bandaríkjunum, en hafði notað einni tilraun færra við að komast yfir 4,70 metra fyrr í keppninni. Eliza McCartney frá Nýja-Sjálandi fékk brons með 4,80 metra stökki.

Ekaterini Stefanidi fagnaði sætum sigri í stangarstökki.
Ekaterini Stefanidi fagnaði sætum sigri í stangarstökki. AFP

Heimsmethafinn Jelena Isinbajeva var ekki með, frekar en nær allt rússneskt frjálsíþróttafólk, en hún hefur gagnrýnt harðlega þá ákvörðun Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins að banna Rússum þátttöku, enda hefur hún sjálf aldrei á löngum ferli fallið á lyfjaprófi.

Dilshod Nazarov frá Tadsjíkistan vann svo sleggjukast karla með 78,68 metra kasti. Ivan Tsikhan frá Hvíta-Rússlandi varð annar og Wojciech Nowicki frá Póllandi þriðji, en hann kastaði 77,73 metra í lokakasti sínu og var aðeins sex sentímetrum frá Tsikhan.

Jamaíska sveitin fagnaði sigrinum vel.
Jamaíska sveitin fagnaði sigrinum vel. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert