ÓL í Ríó – dagur 15

Nora Mørk og stöllur í norska handboltalandsliðinu leika um bronsverðlaunin …
Nora Mørk og stöllur í norska handboltalandsliðinu leika um bronsverðlaunin í dag. AFP

Þórir Hergeirsson stýrir norska kvennalandsliðinu í handbolta í dag í leiknum um bronsverðlaunin á Ólympíuleikunum í Ríó. Þetta er næstsíðasti dagur Ólympíuleikanna.

Noregur mætir Hollandi kl. 14.30 en þessi lið mættust einnig í úrslitaleik HM í Danmörku í desember, þar sem Noregur vann öruggan sigur.

Úrslitaleikurinn í handbolta kvenna á Ólympíuleikunum er á milli Frakklands og Rússlands og hefst hann kl. 18.30.

Í dag er einnig leikið til úrslita í körfubolta kvenna en þar mætast Bandaríkin og Spánn, einnig kl. 18.30. Frakkland og Serbía mætast í bronsleiknum kl. 14.30.

Í kvöld er síðasta kvöld frjálsíþróttakeppninnar. Þar ráðast úrslitin í grein Anítu Hinriksdóttur, 800 metra hlaupi, en einnig í hástökki kvenna og spjótkasti, 1.500 metra og 5.000 metra hlaupi karla. Lokagreinarnar eru svo 4x400 metra boðhlaup karla og kvenna.

Úrslitaleikurinn í fótbolta karla er einnig í kvöld, kl. 20.30, en þar mætast heimamenn og Þjóðverjar.

Keppt er um 31 gullverðlaun í dag, í áðurtöldum og eftirtöldum greinum: badminton, hnefaleikum, róðri, hjólreiðum, dýfingum, golfi kvenna, fimleikum, nútímafimmtarþraut karla, taekwondo, þríþraut kvenna, blaki kvenna, sundknattleik karla og glímu.

Neymar verður í eldlínunni með brasilíska landsliðinu sem getur unnið …
Neymar verður í eldlínunni með brasilíska landsliðinu sem getur unnið til gullverðlauna í fótbolta í kvöld. AFP
Caster Semenya er sigurstranglegust í 800 metra hlaupi, grein Anítu …
Caster Semenya er sigurstranglegust í 800 metra hlaupi, grein Anítu Hinriksdóttur, þar sem úrslitin ráðast um miðnætti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert