„Er að upplifa ótrúlegar tilfinningar“

Guðmundur Þórður Guðmundsson og lærisveinar hans fögnuðu innilega í leikslok.
Guðmundur Þórður Guðmundsson og lærisveinar hans fögnuðu innilega í leikslok. AFP

Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins í handknattleik, var auðvitað í skýjunum eftir 28:26 sigur á Frökkum í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Ríó í Brasilíu í dag.

Franska liðið var talið mun sigurstranglegra fyrir leikinn, enda hefur liðið tekið ólympíugullið í síðustu tvö skipti, en danska liðið kom þó töluvert á óvart á mótinu og vissu því Danir ekki við hverju var að búast í dag.

Danska liðið var tveimur mörkum yfir í hálfleik en náði mest fimm marka forystu í síðari hálfleiknum. Lokamínúturnar voru æsispennandi en þar voru Danir aðeins tveimur mörkum yfir og opinn leikur. Danirnir höfðu þetta þó og eru ólympíumeistarar en þetta er fyrsta gullið sem Guðmundur vinnur sem þjálfari.

„Þetta var baráttuleikur. Ég talaði við strákana og sagði við þá að við þyrftum að byrja af krafti og koma þeim á óvart. Mér fannst við einmitt gera það, þannig að ég er mjög sáttur við hvernig við spiluðum þetta í dag,“ sagði Guðmundur við danska fjölmiðla eftir leik.

„Ég sagði við þá fyrir leikinn að við gætum unnið þetta og það gerðum við, svo þetta er frábær dagur fyrir okkur.“

„Ég er að upplifa svo mikið af ótrúlegum tilfinningum núna. Ég var auðvitað mjög spenntur og þetta var mjög jafn leikur þó svo við höfum verið fimm mörkum yfir, þá komu Frakkarnir til baka. Það er ekki auðvelt að vinna þá en við vörðumst frábærlega í seinni hálfleik og ég held að ég hafi aldrei séð þetta danska lið verjast betur en í dag,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert