Ofurhetjur Ólympíuleikanna

Simone Biles kom, sá og sigraði á Ólympíuleikunum í Ríó.
Simone Biles kom, sá og sigraði á Ólympíuleikunum í Ríó. AFP

Á Ólympíuleikunum í Ríó þetta sumar hafa nokkrir sigursælir íþróttamenn vakið meiri athygli en aðrir og í hugum margra eru þeir hálfgerðar ofurhetjur leikanna. Fortíð þessara íþróttagarpa er eins ólík og þeir eru margir – sumir hafa ofuraga í forgrunni en aðrir virðast láta mátulegt kæruleysi vinna með sér. Bróðurparturinn á þó sameiginlegt að hafa þurft að hafa fyrir lífinu, alast upp í fátækt, glíma við námsörðugleika, ADHD og jafnvel stríð. Sunnudagsblað Morgunblaðsins, sem kemur út um helgina, fjallar um nokkra þessara einstaklinga. Þeir eiga það líka sameiginlegt að gefast aldrei upp.

Vinnur glettnin með?

Spretthlauparinn jamaíski Usain Bolt er kallaður „fljótasti maður í heimi“. Á þrennum Ólympíuleikum í röð hefur hann unnið 100 og 200 metra hlaup. Ef hann sigrar 4x100 metra boðhlaup um helgina hefur hann náð níu gullverðlaunum í frjálsum íþróttum en aðeins tveir aðrir íþróttamenn hafa náð því.
Bolt er glaðlegur og glettinn og tekur dansspor eftir sigra. Hann hefur alla tíð nálgast íþróttina á mjög afslappaðan hátt; er talinn leyfa sér meira en margir íþróttamenn í hans stöðu þar sem hann hittir vini sína og fer út að dansa þegar aðrir myndu mæta á æfingar. Fjölskylda hans og vinir í Trelawny á Jamaíka segja að hann hafi verið svona frá því hann var strákur, þessi gleði á vellinum sé sú sama og hann sýndi fimm ára. Stóra spurningin að mati margra er; Ef Usain Bolt myndi haga sér eins og flestir íþróttamenn á Ólympíuleikunum; æfa meira og slaka minna á – væri hann þá ekki að gera enn ótrúlegri hluti? Eða færi honum jafnvel að ganga verr ef hann setti inn strangan aga og minna gaman?

Usain fagnar sigri í 200 metra hlaupi.
Usain fagnar sigri í 200 metra hlaupi. AFP

Mannslíkaminn á ekki að geta gert þetta

Í Íslendingasögunum er sagt frá köppum sem stukku hæð sína. Hin 19 ára gamla Simone Biles stekkur hins vegar tvisvar sinnum hæð sína og það er það sem hefur gert áhorfendur og sérfræðinga um fimleika orðlausa. Enginn vissi að þetta væri hægt. 
Því þótt hún hafi fengið fern gullverðlaun og brons eru það gólfæfingarnar þar sem hún getur nýtt þessa gífurlegu hæð í stökkunum til að gera hinar ótrúlegustu æfingar sem kallast nú einfaldlega „The Biles“. 
Simone Biles og systir hennar voru ættleiddar af móðurafa sínum og -ömmu þar sem foreldrarnir voru fíklar. Móðir Biles hefur sagt í viðtölum í vikunni að hún hafi verið edrú í 9 ár og heyri í dóttur sinni á nokkurra mánaða fresti. Biles er ein þeirra fáu sem hlusta ekki á tónlist á undan æfingum heldur kjaftar við vini sína og slær á létta strengi.

Hljóp undan átökum

Bretinn Mohamed Farah hlaut þriðja ólympíugull sitt á ferlinum þegar hann vann 10 km hlaupið og það þrátt fyrir að hafa dottið í hlaupinu og þurft að vinna upp tíma. Hann er kominn í úrslit í 5.000 m hlaupi sem fer fram í dag, sunnudag, en í undanúrslitum þess hlaups hrasaði hann aftur en komst samt áfram.
Farah er ekki maður sem gefst upp og þekkir vel að þurfa að hafa fyrir lífinu. Hann fæddist í Sómalíu en ólst einnig upp í Djibútí. Faðir hans var breskur ríkisborgari sem hafði verið á ferðalagi í Austur-Afríku, hitt móður Farah og úr því stutta ævintýri varð Farah til.
Þegar Farah fluttist til Bretlands til föður síns, átta ára gamall, hafði hann hlaupið en í þeim tilgangi að forðast átök og borgarastríð í heimalandi sínu. Hann talaði enga ensku þegar hann kom til Bretlands og lenti meira að segja einu sinni í slagsmálum vegna misskilnings þegar hann reyndi að gera sig skiljanlegan. Hann gerði leikfimikennara sína fljótt gapandi sem sáu hvílíkur hæfileikamaður var þarna á ferð. Mohamed Farah hefur verið útnefndur besti íþróttamaður sem Bretar hafa átt fyrr og síðar. Hann er mikill mannvinur og stofnaði góðgerðarsjóð undir eigin nafni fyrir nokkrum árum.

Mo Farah eins og hann er kallaður bítur í gullið.
Mo Farah eins og hann er kallaður bítur í gullið. AFP

ADHD kenndi að allt er hægt

 Michelle Carter vann til gullverðlauna í kúluvarpi í Ríó og gerði sig og föður sinn um leið að fyrstu feðginunum til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum í einstaklingsgrein en hann vann til silfurverðlauna á leikunum 1984 og er þjálfarinn hennar í dag.
Michelle Carter hefur bæði þurft að glíma við lesblindu og ADHD og segir glímuna við það hafa kennt sér að með vilja og vinnu sé allt hægt. Carter er lærður förðunarmeistari og það vakti athygli að ólíkt flestum keppendum var hún mikið máluð og með gerviaugnhár þegar hún keppti. Hún segir að það að líða vel með sjálfan sig skipti máli þegar maður keppir og hún hafi því ákveðið að vera eins og hún er vön. Hún hefur líka verið talskona líkamsvirðingar og sagt að Ólympíuleikarnir þurfi að sýna konum að það sé ekki til ein tegund af heilbrigðum líkama – sjálf sé hún 117 kíló en heilbrigð og flott.

Michelle Carter.
Michelle Carter. AFP

Mikilvægasta afrekið

Afrek Simone Manuel, fyrstu bandarísku blökkukonunnar til að vinna gull í sundi á Ólympíuleikunum, er talið munu hafa slík áhrif að fáir verðlaunahafar hafi fyrr eða síðar afrekað slíkt. Fleiri blökkumenn í Bandaríkjunum muni læra að synda. Árlega drukkna 3.500 Bandaríkjamenn og stærstur hluti þeirra er blökkumenn. Könnun frá 2010 sýndi að börn af afrískum uppruna kunnu mörg illa eða ekki að synda. Ástæðan er sögð meðal annars sú að lengi fram eftir 21. öldinni var svörtum meinaður aðgangur að sundlaugum í Bandaríkjunum og því kunnu heilar kynslóðir ekki að synda.
Þetta er því risamál í Bandaríkjunum, þar sem sund hefur verið íþrótt hvíta forréttindahópsins, og er vonast er til þess að svört börn um öll Bandaríkin þyrpist í sundlaugarnar. Sjálf segist Manuel taka því af auðmýkt að geta haft svo mikil áhrif. 

Simone Manuel.
Simone Manuel. AFP

Áttu ekki fyrir kvöldmat

Elaine Thompson gerði það sem aðeins ein kona hefur gert síðustu 30 árin; vann bæði 100 metra og 200 metra hlaup á Ólympíuleikunum. Ótrúlegt en satt, þá var Elaine Thompson ekki afburðamanneskja í spretthlaupi á sínum yngri árum og fór ekki að setja met fyrr en hún fékk skólastyrk til að fara í háskóla þar sem hún breyttist úr meðalhlaupara í afburðamanneskju og í dag er hún fjórða fljótasta kona heims sem hefur nokkru sinni hlaupið á Ólympíuleikunum.
Thompson ólst upp við mikla fátækt á Jamaíka, og urðu foreldrar hennar að gefa uppeldi hennar frá sér til móðurömmunnar. Amman hefur sagt í viðtölum að hún hafi lagt mikið upp úr því að geta alltaf gefið hlaupakonunni góðan kvöldmat og þrátt fyrir eigin fátækt hafi það gengið eftir en stundum hafi hún þurft að fá lánaðan pening til þess.
Elaine Thompson er mjög náin móður sinni og hefur látið hafa eftir sér að hún ætli að reyna að hjálpa fjölskyldu sinni fjárhagslega nú þegar hún fer að fá pening fyrir hlaup sín.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert