Silfurverðlaunahafi óttast um líf sitt

Feyisa Liles kemur annar í mark í maraþonhlaupinu í Ríó …
Feyisa Liles kemur annar í mark í maraþonhlaupinu í Ríó í gær og sýnir Oromo-fólki stuðning með merkjasendingu sinni. AFP

Feyisa Lilesa, maraþonhlaupari frá Eþíópíu, sem vann silfurverðlaun í maraþonhlaupi á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu, óttast það að verða beittur pólitískum ofsóknum eftir merkjasendingu sína þegar hann kláraði hlaupið í gær.  

Lilesa krossaði saman höndum sínum til stuðnings þjóðarbrotinu Oromo sem er stærsti þjóðfélagshópur Eþíópíu, en Oromo-fólk hefur verið útskúfað, fangelsað og drepið af stjórnvöldum í Eþíópíu undanfarin ár. Oromo-fólkið er um það bil þriðjungur af íbúafjölda Eþíópíu, en rúmlega 100 milljónir manna búa í landinu.

Lilesa endurtók þessi mótmæli sín á blaðamannafundi eftir hlaupið og sagðist vera að vekja athygli á endurteknum ofsóknum á hendur Oromo-fólki. Lilesa sagðist enn fremur vera að setja sig og fjölskyldu sína í lífshættu með gjörðum sínum og hann vildi ekki halda aftur til síns heimalands.

Gæti verið sviptur verðlaununum

Getachew Reda, forsætisráðherra Eþíópíu, segir aðgerðir stjórnvalda nauðsynlegar til þess að tryggja öryggi almennra borgara. Mannréttindasamtök hafa hins vegar vaxandi áhyggjur af því að Oromo-fólk hafi látið lífið í aðgerðum stjórnvalda til þess að kveða niður mótmæli Oromo-fólks vegna illrar meðferðar stjórnvalda á fólki af þjóðarbrotinu. 

Nokkrir úr fjölskyldu Lilesa hafa verið fangelsaðir vegna uppruna síns og hann segist uggandi um hag konu sinnar og tveggja barna. Lilesa hefur hug á því að halda kyrru fyrir í Brasilíu um sinn eða halda annaðhvort til Kenía eða Bandaríkjanna. Lilesa ætlar í framhaldinu að sækja um dvalarleyfi á fyrrgreindum stöðum.  

Alþjóðaólympíunefndin hefur áður svipt íþróttamenn verðlaunum sínum á Ólympíuleikum vegna pólitískra aðgerða þeirra meðan á leikum stendur. Sem dæmi má nefna bandarísku spretthlauparana Tommie Smith og John Carlos sem sýndu svörtu fólki stuðning sinn með kveðju sinni á Ólympíuleikunum í Mexíkó árið 1968. Alþjóðaólympíunefndin hefur aftur á móti ekkert tjáð sig um pólitíska aðgerð Lilesa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert