Bandaríkin steinlágu gegn Svíþjóð – Stóra-Bretland og Brasilía unnu

Stina Blackstenius fagnar öðru marki sínu og Svía í morgun …
Stina Blackstenius fagnar öðru marki sínu og Svía í morgun ásamt Fridolinu Rolfoe. AFP

Sænska kvennalandsliðið í knattspyrnu gerði sér lítið fyrir og vann afar öruggan 3:0 sigur gegn heimsmeisturum Bandaríkjanna í fyrsta leik liðanna í G-riðlinum á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun.

Þær sænsku voru sterkari aðilinn allan tímann og komust yfir með laglegu skallamarki Stinu Blackstenius, sóknarkonu Häcken, sem Diljá Ýr Zomers leikur með, á 25. mínútu. Hún fékk þá fyrirgjöf frá Sofiu Jakobsson, sleit sig lausa og skoraði af öryggi.

Staðan 1:0 í hálfleik og Blackstenius var aftur á ferðinni snemma í síðari hálfleiknum, á 55. mínútu.

Hún skoraði þá af stuttu færi með vinstrifótarskoti í kjölfar hornspyrnu.

Góðu dagsverki var þar með lokið hjá Blackstenius og var hún tekin af velli á 63. mínútu.

Inn í hennar stað kom Lina Hurtig. Hún mátti ekki vera eftirbátur Blackstenius og gerði út um leikinn á 72. mínútu.

Hún fékk þá fyrirgjöf frá Hönnu Glas og skoraði með góðum skalla fyrir miðjum teignum.

Staðan orðið 3:0, sem reyndust lokatölur.

Bakfallsspyrna White og auðvelt hjá Brasilíu

Ellen White var hetja Stóra-Bretlands þegar liðið vann 2:0 sigur á Síle í E-riðlinum.

Hún skoraði bæði mörk Stóra-Bretlands, það fyrra af stuttu færi á 18. mínútu eftir sendingu frá Lauren Hemp og það síðara með magnaðri bakfallsspyrnu eftir sendingu Lucy Bronze á 72. mínútu.

Ellen White (fyrir miðju) fagnar öðru marka sinna í morgun.
Ellen White (fyrir miðju) fagnar öðru marka sinna í morgun. AFP

Brasilía átti svo ekki í nokkrum vandræðum með Kína í F-riðlinum.

Staðan var 2:0 í hálfleik og seint í leiknum komu þrjú mörk til viðbótar. Snillingurinn Marta skoraði tvö marka Brasilíukvenna og Beatriz, Debinha og Andressa Alves skoruðu eitt mark hver, sú síðastnefnda úr vítaspyrnu.

Marta fagnar síðara marki sínu gegn Kína í morgun.
Marta fagnar síðara marki sínu gegn Kína í morgun. AFP
mbl.is