Dramatík í lokin þegar lið Alfreðs tapaði gegn Spánverjum

Alfreð Gíslason fylgist með sínum mönnum í leiknum gegn Spánverjum …
Alfreð Gíslason fylgist með sínum mönnum í leiknum gegn Spánverjum í dag. AFP

Spánverjar lögðu Alfreð Gíslason og hans menn í þýska karlalandsliðinu í handknattleik að velli í æsispennandi leik í A-riðli Ólympíuleikanna í Tókýó í dag, 28:27.

Liðin voru yfir til skiptis í fyrri hálfleiknum. Þjóðverjar komust í 10:7, Spánverjar jöfnuðu í 12:12 en Juri Knorr kom þýska liðinu yfir fyrir hlé, 13:12.

Spánverjinn Alex Dujshebaev reynir að komast fram hjá Þjóðverjanum Julius …
Spánverjinn Alex Dujshebaev reynir að komast fram hjá Þjóðverjanum Julius Kuhn í leiknum í dag. AFP

Spánverjar náðu þriggja marka forystu, 19:16, eftir átta mínútur í seinni hálfleik en Þjóðverjar höfðu jafnað í 21:21 um miðjan hálfleikinn.

Eftir það var jafnt á öllum tölum. Þjóðverjar voru yfir, 27:26, þegar tæpar tvær mínútur voru eftir en Alex Dujshebaev kom hins vegar Spánverjum í 28:27 einni mínútu fyrir leikslok. Þýska liðið fór afar illa að ráði sínu þegar það fékk á sig ruðning í tveimur sóknum í röð, fyrir og eftir mark Dujshebaevs.

Þjóðverjar náðu boltanum aftur í blálokin og fengu aukakast um leið og leikurinn var flautaður af en Philipp Weber skaut yfir mark Spánverja.

Steffen Weinhold skoraði 5 mörk fyrir Þjóðverja og Hendrik Pekeler 4 en hjá Spánverjum voru Adrian Figueras og Aleix Gómez markahæstir með 5 mörk hvor.

Þar með er fyrstu umferð A-riðilsins lokið en í morgun unnu Frakkar sigur á Argentínu, 33:27, og Norðmenn sigruðu Brasilíu 27:24.

Tveir leikir eru eftir í B-riðlinum í dag. Portúgal og Egyptaland leika kl. 10.30 og Dagur Sigurðsson og hans menn í gestgjafaliði Japan mæta heimsmeisturum Danmerkur klukkan 12.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert