Leikmaður Stjörnunnar skoraði á ÓL

Betsy Hassett með boltann í dag.
Betsy Hassett með boltann í dag. AFP

Bandaríkin unnu sinn fyrsta sigur í knattspyrnu í kvennaflokki á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag er liðið vann 6:1-stórsigur á Nýja-Sjálandi. 

Rose Lavelle og Lindsey Horan komu Bandaríkjunum í 2:0 áður en Abby Erceg skoraði sjálfsmark. Betsy Hassett lagaði stöðuna fyrir Nýja-Sjáland á 72. mínútu en Hassett er leikmaður Stjörnunnar. 

Það dugði skammt því Christen Press og Alex Morgan bættu við mörkum, áður en Catherine Bott skoraði annað sjálfsmark Nýja-Sjálands og sjötta mark Bandaríkjanna. 

Marta skoraði enn og aftur.
Marta skoraði enn og aftur. AFP

Það var mikið fjör er Evrópumeistarar Hollands og Brasilía mættust. Vivianne Miedema kom Hollandi yfir strax á 3. mínútu en Debinha jafnaði á 16. mínútu. Miedema var aftur á ferðinni á 59. mínútu en sex mínútum síðar jafnaði goðsögnin Marta í 2:2. 

Ludmila Da Silva kom Brasilíu í 3:2 á 68. mínútu en Dominique Janssen jafnaði fyrir Holland á 79. mínútu og þar við sat. Bæði lið eru með fjögur stig eftir tvo leiki. 

Ellen White, leikmaður Manchester City, var hetja Stóra-Bretlands í 1:0-sigri á heimakonum í Japan. Stóra-Bretland tryggði sér sæti í átta liða úrslitum með sigrinum. 

Ellen White var hetja Stóra-Bretlands.
Ellen White var hetja Stóra-Bretlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert