Tólf ára og stolt eftir tap á Ólympíuleikunum

Hend Zaza einbeitt í leiknum við Liu Jia í Tókýó …
Hend Zaza einbeitt í leiknum við Liu Jia í Tókýó í morgun. AFP

Tólf ára stúlka frá Sýrlandi er yngsti keppandinn á Ólympíuleikunum í Tókýó. Hún er þegar fallin úr keppni í borðtennis en kveðst vera stolt af þátttöku sinni og að draumur hennar hafi ræst.

Hend Zaza var annar fánabera Sýrlands á setningarathöfn leikanna í gær og hún var mætt í borðtennishöllina í Tókýó í morgun til að spila við Liu Jia frá Austurríki í fyrstu umferðinni.

Jia vann öruggan sigur, 4:0, en Zaza sagði við fréttamenn að keppninni lokinni að hún væri ánægð með að hafa gert sitt besta.

Liu Jia hughreystir Hend Zaza eftir viðureignina í morgun.
Liu Jia hughreystir Hend Zaza eftir viðureignina í morgun. AFP

„Mín skilaboð til allra sem vilja komast í þessa stöðu eru: Berjist fyrir draumum ykkar. Leggið allt í sölurnar, sama hvaða hindranir eru í veginum, og þið náið ykkar markmiðum. Það var erfitt að spila við mjög reyndan andstæðing í fyrsta leiknum á Ólympíuleikum og ekki auðvelt að búa sig undir það andlega. En ég komst einhvern veginn yfir það og held að það sé það besta við frammistöðu mína í leiknum,“ sagði þessi tólf ára gamla stúlka sem hefur gengið í gegnum ýmsa erfiðleika í stríðshrjáðu heimalandi sínu.

„Næst ætla ég að leggja hart að mér og komast í gegnum fyrstu og aðra og þriðju umferð því ég vil komast lengra en að spila bara í fyrstu umferð,“ sagði hún enn fremur eftir að hafa tekið „sjálfu“ af sér með andstæðingnum.

Hend Zaza og Ahmad Saber Hamcho fánaberar fóru fyrir sveit …
Hend Zaza og Ahmad Saber Hamcho fánaberar fóru fyrir sveit Sýrlands á setningarathöfn leikanna. AFP

Liu Jia kvaðst sjálf hafa verið mjög óstyrk fyrir leikinn gegn ungu sýrlensku stúlkunni. „Ég á sjálf tíu ára dóttur og sagði við hana að það væri skrýtið að fara að keppa við einhvern sem væri bara tveimur árum eldri en hún. Dóttir mín sagði bara að ég yrði að vinna, svo það dró ekki úr pressunni!“ sagði Liu Jia.

Hend Zaza hefur æft borðtennis frá fimm ára aldri og …
Hend Zaza hefur æft borðtennis frá fimm ára aldri og er yngsti keppandi Ólympíuleikanna í Tókýó. AFP
mbl.is