Tvær slæmar umferðir felldu Ásgeir

Ásgeir Sigurgeirsson í keppnishöllinni í morgun.
Ásgeir Sigurgeirsson í keppnishöllinni í morgun. Ljósmynd/ÍSÍ

Ásgeir Sigurgeirsson hefur lokið keppni í loftskammbyssu af 10 metra færi á Ólympíuleikunum í Tókýó en hún hófst klukkan fjögur í morgun að íslenskum tíma, klukkan eitt eftir hádegið að staðartíma í Japan.

Ásgeir í skotkeppninni á Ólympíuleikunum.
Ásgeir í skotkeppninni á Ólympíuleikunum. Ljósmynd/ÍSÍ

Ásgeir fékk 570 stig af 600 mögulegum en átta ára gamalt Íslandsmet hans í greininni er 589 stig sem hefði fært honum efsta sætið í undankeppninni. Hann endaði í 28. sæti af 36 keppendum en átta fyrstu komust í úrslitin sem hefjast á eftir, eða klukkan 6.30 að íslenskum tíma.

Ásgeir byrjaði vel og fékk 95 og 98 stig í fyrstu tveimur umferðunum og var að þeim loknum í hópi tíu efstu manna. Næstu tvær umferðir drógu hann hins vegar niður en þar fékk Ásgeir 91 og 92 stig. Eftir það náði hann sér á strik á ný og fékk 97 og 97 stig í tveimur síðustu umferðunum og lauk þar með keppni með 570 stig, eða 9.500 í meðalskor.

Tveir næstu menn fyrir ofan fengu einnig 570 stig en ná hefði þurft 578 stigum til að verða í hópi átta efstu og komast í úrslitakeppnina.

Lárus Blöndal forseti ÍSÍ, Ásgeir Sigurgeirsson og Líney Rut Halldórsdóttir …
Lárus Blöndal forseti ÍSÍ, Ásgeir Sigurgeirsson og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ í keppnishöllinni í dag. Ljósmynd/ÍSÍ

Bestum árangri í undankeppninni náðu Chaudhary Saurabh frá Indlandi og Bowen Zhang frá Kína en þeir fengu báðir 586 stig. Hinir sem keppa til úrslita eru Christian Reitz frá Þýskalandi (584), Pavlo Korostylov frá Úkraínu (581), Javad Foroughi frá Íran (580), Mose Kim frá Suður-Kóreu (579), Wei Pang frá Kína (578) og Damir Mikec frá Serbíu (578).

Uppfært kl. 7.58:
Javad Foroughi frá Íran varð ólympíumeistari í greininni eftir sigur í úrslitakeppninni þar sem hann fékk 244,8 stig og setti ólympíumet. Damir Mikec frá Serbíu varð annar með 237,9 stig og Wei Pang frá Kína fékk bronsverðlaunin með 217,6 stig.

Javad Foroughi frá Íran með gullverðlaunin eftir sigur í keppni …
Javad Foroughi frá Íran með gullverðlaunin eftir sigur í keppni með loftskammbyssu af 10 m færi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert