Dramatískur fyrsti sigur Frakka – Brasilía slapp með skrekkinn

André-Pierre Gignac skoraði þrennu.
André-Pierre Gignac skoraði þrennu. AFP

Frakkland vann sinn fyrsta sigur í fótbolta í karlaflokki á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun er liðið vann 4:3-sigur á Suður-Afríku í hörkuleik.

Kobamelo Kodisang kom Suður-Afríku yfir á 53. mínútu en André Pierre Gignac jafnaði á 57. mínútu. Fyrirliði Frakka átti heldur betur eftir að láta að sér kveða.

Evidence Makgopa kom Suður-Afríku aftur yfir á 73. mínútu en aftur jafnaði Gignac á 78. mínútu. Fjórum mínútum síðar kom Teboho Mokena Suður-Afríku aftur yfir en enn og aftur jafnaði Gignac, nú úr víti á 86. mínútu. Það var svo Teji Svanier sem tryggði franskan sigur í uppbótartíma.

Brasilía slapp með skrekkinn á móti Fílabeinsströndinni. Douglas Luiz fékk beint rautt spjald strax á 14. mínútu í brasilíska liðinu. Þrátt fyrir það tókst Afríkuþjóðinni ekki að skora. Bæði lið enduðu leikinn með tíu menn en Kouassi Eboue fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 79. mínútu og lokatölur urðu 0:0. 

Argentína vann í sinn fyrsta sigur með 1:0-sigri gegn Egyptalandi. Facundu Medina skoraði sigurmark Argentínu. Loks vann Hondúras vann nokkuð óvæntan 3:2-sigur á Nýja-Sjálandi. Luis Palma, Carlos Obregón og Rigoberto Rivas skoruðu mörk Hondúras og þeir Liberato Ccace og Christ Wood skoruðu fyrir Nýja-Sjáland.  

Douglas Luiz fékk rautt spjald snemma leiks.
Douglas Luiz fékk rautt spjald snemma leiks. AFP
mbl.is