Næst gullna alslemman?

Novak Djokovic á æfingu fyrir leikana í Tókýó.
Novak Djokovic á æfingu fyrir leikana í Tókýó. AFP

Tennisleikarinn Novak Djokovic mætir á sína fjórðu Ólympíuleika í Tókýó og hefur líklega aldrei átt meiri möguleika á sigri en nú. Hinn 34 ára Serbi hefur unnið fyrstu þrjú risamót ársins; Opna ástralska, Opna franska og Wimbledon-meistaramótin. Vinni hann á leikunum nú og á síðasta risamóti ársins, Opna bandaríska meistaramótinu, verður hann fyrsti karlinn og aðeins annar tennisleikari sögunnar til að ná hinni svokölluðu gullnu alslemmu. Steffi Graf vann öll fjögur risamót ársins og gull á Ólympíuleikunum í Seúl árið 1988.

Djokovic vann fyrr í mánuðinum sitt 20. risamót á ferlinum þegar hann lagði Matteo Berrettini í úrslitaleik. Jafnaði hann þar með keppninauta sína, Rodger Federer og Rafael Nadal, í fjölda sigra á risamótum, en þeir þrír deila nú titlinum yfir þann karl sem hefur unnið flest slík mót. Er í raun ótrúlegt að þeir þrír sigursælustu frá upphafi hafi allir verið við toppinn síðasta áratug og til marks um yfirburði þremenninganna.

Djokovic þarf hins vegar ekki að hafa áhyggjur af þeim Federer og Nadal á leikunum í ár þar sem þeir eru frá vegna meiðsla og álags. Þá verður Dominic Thiem, sigurvegari Opna bandaríska meistaramótsins í fyrra, ekki heldur meðal keppenda. Djokovic vann brons á Ólympíuleikunum 2008, lenti í fjórða sæti árið 2012 en tapaði í fyrstu umferð 2016.

Nánar er fjallað um Djokovic og aðra íþróttamenn sem eru líklegir til afreka á Ólympíuleikunum í Tókýó í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert