Smitaðist aftur og missir af Ólympíuleikunum

Jon Rahm í keppni á The Open á suðurströnd Englands …
Jon Rahm í keppni á The Open á suðurströnd Englands um miðjan mánuðinn. AFP

Efsti kylfingur heimslistans í golfi, Jon Rahm frá Spáni, þarf að hætta við þátttöku á Ólympíuleikunum í Japan vegna kórónuveirunnar. 

Rahm hefur tvívegis smitast af kórónuveirunni á liðlega tveimur mánuðum. Hann þurfti að hætta keppni á Memorial-mótinu í Ohio í júní og var þá með forystu fyrir lokahringinn þegar hann fékk tíðindin úr skimuninni. 

Ekki sló það Rahm út af laginu því þegar hann var orðinn leikfær á ný tókst honum að sigra á Opna bandaríska meistaramótinu síðar í júní. Var það hans fyrsti sigur á risamóti. 

Eftir að hafa einnig leikið vel á Opna breska meistaramótinu í þessum mánuði þótti Rahm líklegur til afreka í Tókýó. Eða þar til í dag að fréttir bárust af því að hann hefði aftur smitast af veirunni skæðu. 

Skammt er nú stórra högga á milli því Bryson DeChambeau getur ekki keppt fyrir Bandaríkin á leikunum af sömu ástæðu. Hann sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu 2020. 

mbl.is