Alfreð kominn með fyrstu stigin í hús

Alfreð Gíslason fylgist með sínum mönnum á hliðarlínunni í leik …
Alfreð Gíslason fylgist með sínum mönnum á hliðarlínunni í leik Þýskalands og Argentínu í morgun. AFP

Þýska karlalandsliðið í handknattleik, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, fékk í morgun sín fyrstu stig í A-riðlinum á Ólympíuleikunum í Tókýó með því að leggja Argentínu að velli í annarri umferð riðlakeppninnar.

Þýskaland var yfir í hálfleik, 14:13, lenti undir í byrjun síðari hálfleiks en seig síðan fram úr þegar leið á hálfleikinn. Staðan var 25:19 þegar tíu mínútur voru eftir og eftir það voru úrslitin ráðin og lokatölur síðan 33:25.

Marcel Schiller og Timo Kastening skoruðu 7 mörk hvor fyrir Þjóðverja og Steffen Weinhold 5 en Diego Simonet og Ramiro Martínez gerðu 5 mörk hvor fyrir Argentínumenn.

Í sama riðli unnu Frakkar sigur á Brasilíumönnum, 34:29, eftir að hafa verið 16:13 yfir í hálfleik. Mörk Frakka dreifðust afar jafnt á liðið en Nicola Karabatic, Michael Guigou og Nicolas Tournat skoruðu fjögur hver. Leonardo Dutra skoraði hins vegar 10 mörk fyrir Brasilíu.

Frakkar eru með 4 stig í A-riðli, Spánn og Noregur, sem mætast á eftir, eru með 2 stig eins og Þjóðverjar en Brasilía og Argentína eru án stiga.

Mikkel Hansen fagnar einu af níu mörkum sínum fyrir Dani …
Mikkel Hansen fagnar einu af níu mörkum sínum fyrir Dani gegn Egyptum í morgun. AFP

Í B-riðlinum er einn leikur búinn í morgun en þar unnu dönsku heimsmeistararnir sigur á Egyptum, 32:27, eftir að hafa verið undir í hálfleik, 14:15. Mikkel Hansen skoraði 9 mörk fyrir Dani og Mathias Gidsel 8 og Niklas Landin var með 35 prósent markvörslu. Ahmed Mohamed skoraði 6 mörk fyrir Egypta.

Danir eru með 4 stig í B-riðli en þar eiga Íslendingaliðin bæði eftir að spila í dag. Barein mætir Portúgal klukkan 10.30 og Japan mætir Svíþjóð klukkan 12.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert