Egyptar skutu Dönum skelk í bringu

Mikkel Hansen var markahæstur í morgun.
Mikkel Hansen var markahæstur í morgun. AFP

Danmörk vann góðan 32:27 sigur á Egyptalandi í B-riðlinum í handknattleik karla eftir að hafa átt í stökustu vandræðum í fyrri hálfleiknum.

Egyptar náðu snemma 1:4 forystu og lentu aldrei undir í fyrri hálfleiknum. Danir náðu að jafna í 10:10 en Egyptar náðu aftur forystunni og leiddu með einu marki í hálfleik, 14:15.

Mikið jafnræði var með liðunum til að byrja með í síðari hálfleiknum en snemma í honum tóku Danir forystuna, 16:15, í fyrsta sinn í leiknum.

Um miðjan hálfleikinn fóru Danir að sigla fram úr og náðu 23:20 forystu. Eftir það var ekki aftur snúið og Danmörk fór að lokum með fimm marka sigur af hólmi.

Danir eru því í efsta sæti riðilsins með fullt hús stiga, 4 stig, að loknum tveimur leikum. Egyptar koma þar á eftir í öðru sætinu með 2 stig eftir tvo leiki en hin fjögur liðin í riðlinum eiga enn eftir að leika sinn annan leik.

Markahæstir í liði Dana voru Mikkel Hansen með níu mörk og Mathias Gidsel með átta mörk.

Yehia El-Deraa og Ahmed Hessam voru markahæstir í liði Egypta, báðir með sex mörk.

mbl.is