Spánverjar mörðu Norðmenn með flautumarki

Adria Figueras átti stórleik fyrir Spánverja í morgun.
Adria Figueras átti stórleik fyrir Spánverja í morgun. AFP

Spánn hafði sigur gegn Noregi með minnsta mun, 28:27, A-riðlinum í handknattleik karla á Ólympíuleikunum í morgun. Sigurmarkið kom úr vítakasti á lokasekúndunni.

Norðmenn höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik og komust í 0:3 í upphafi leiks. Þeir komust mest í fjögurra marka forystu, 2:6, skömmu síðar og létu ekki forskot sitt af hendi í hálfleiknum.

Spánverjar jöfnuðu þó metin í 11:11 og voru einu marki undir í leikhléi, 13:14.

Í síðari hálfleik snerist taflið við og náðu Spánverjar forystu í fyrsta skipti í leiknum þegar þeir komust í 18:17.

Mikið jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði leiks en Spánn komst í þriggja marka forystu, 26:23, þegar skammt var eftir.

Norðmenn gáfust hins vegar ekki upp og jöfnuðu metin í 27:27. Á lokasekúndunni fengu Spánverjar vítakast þegar Harald Reinkind braut á Adria Figueras. Aleix Gómez steig á vítapunktinn og tryggði Spánverjum sigur á ögurstundu.

Figueras fór á kostum í liði Spánverja og var markahæstur í leiknum með 10 mörk.

Markahæstur í liði Norðmanna var Sander Sagosen með sex mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert