Biles: „Ég verð að hugsa um geðheilsuna“

Simone Biles.
Simone Biles. AFP

Simone Biles kveðst hafa dregið sig úr liðakeppni fim­leika­keppn­inn­ar hjá Bandaríkjunum á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag vegna þess að hún hafi einfaldlega ekki treyst sér til að keppa því hún vildi huga að geðheilsu sinni.

„Þetta er svo stórt, þetta eru Ólympíuleikarnir. Þegar allt kemur til alls viljum við ganga heil af gólfinu, ekki borin burt á börum. Ég treysti sjálfri mér ekki jafn vel og ég gerði og ég veit ekki hvort það tengist aldrinum.

Ég er aðeins stressaðri núna þegar ég keppi í fimleikum. Mér líður líka eins og ég skemmti mér ekki jafn vel og átta mig á því,“ sagði Biles, sem er 24 ára gömul, í samtali við Eurosport í dag.

Hún sagðist ætla að taka einn dag í einu áður en hún ákvæði hvort hún tæki þátt í úrslitunum í ein­stak­lingskeppni í fjölþraut og á ein­stök­um áhöld­um fim­leika­keppn­inn­ar á Ólymp­íu­leik­un­um síðar í vik­unni.

„Ég verð að hugsa um geðheilsuna. Við verðum að hugsa um huga okkar og líkama og fara ekki bara að keppa vegna þess að heimurinn vill það,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert