Hann stefnir á verðlaun

Anton Sveinn McKee
Anton Sveinn McKee Ljósmynd/Simone Castrovillari

Anton Sveinn McKee keppir í dag í sinni einu grein á Ólympíuleikunum en undanrásirnar í 200 metra bringusundi karla hefjast klukkan 10.35 að íslenskum tíma. Anton er í riðli númer tvö sem á að fara af stað klukkan 10.39.

Hann er skráður til leiks með 25. besta tímann af 40 keppendum og á að vera fremstur keppenda í öðrum riðli. Anton er skráður á leikana með tímann 2:10,32 mínútur en Íslandsmet hans í greininni frá árinu 2015 er hinsvegar 2:10,21.

Anton ætlar sér stóra hluti en eins og hann sagði í viðtali í Morgunblaðinu síðasta fimmtudag er markmið hans að bæta Íslandsmetið í það minnsta um rúmar þrjár sekúndur og synda að minnsta kosti á 2:07,00 mínútum. Háleitt markmið sagði hann að væri 2:06,50 og draumamarkmið 2:06,00 mínútur.

Miðað við skráðan tíma keppenda þyrfti Anton að synda á um það bil 2:08,00 mínútum til að komast í undanúrslitin en þangað fara sextán bestu í undanrásunum. Það er talsvert innan markmiðsramma hans, en samt myndi hann bæta Íslandsmetið um rúmar tvær sekúndur.

Draumamarkmiðið er heimsmet

Ef Anton nær því sem hann kallar háa markmiðið verður hann í baráttu um verðlaunasæti, hvorki meira né minna. Draumamarkmiðið er hvorki meira né minna en heimsmet en heimsmethafinn Anton Chupkov frá Rússlandi synti á 2:06,12 mínútum fyrir tveimur árum. Ólympíumet Ipei Watanabe frá Japan, sem hann setti í Ríó árið 2016, er 2:07,22 mínútur. Chupkov er mættur til leiks í Tókýó og með heimsmet sitt skráð sem bestan árangur keppenda í greininni.

Umfjöllun um Ólympíuleikana má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »