Sautján ára Alaskastúlka varð ólympíumeistari

Lydia Jacoby fagnar sigrinum í morgun.
Lydia Jacoby fagnar sigrinum í morgun. AFP

Bandaríska stúlkan Lydia Jacoby varð óvænt ólympíumeistari í 100 metra bringusundi kvenna í morgun.

Hún er aðeins sautján ára gömul og er frá Alaska og er fyrsta sundkonan frá ríkinu afskekkta á norðvesturhorni Ameríku sem fær gullverðlaun á Ólympíuleikum.

Jacoby sigraði á 1:04,95 mínútu og var skammt frá ólympíumetinu sem Tatjana Schoenmaker frá Suður-Afríku setti í undanúrslitunum, 1:04,82. Schoenmaker varð að sætta sig við silfrið en bronsið fékk hin sigurstranglega Lilly King frá Bandaríkjunum sem varð ólympíumeistari í greininni í Ríó árið 2016.

„Þetta er klikkað. Ég stefndi á að komast á verðlaunapall en átti alls ekki von á að vinna gullið. Það var óraunverulegt að horfa á úrslitatöfluna eftir sundið,“ sagði Jacoby.

Foreldrar hennar eru bæði skipstjórar í Alaska og kenndu dótturinni að synda til þess að hún væri öruggari með þeim á sjónum. 

„Það er stórt að vera fyrsti sundmeistarinn frá Alaska. Flest þekktasta sundfólkið kemur frá stóru félögunum en ég kem frá litlu félagi og fámennu ríki og það sýnir að það skiptir engu máli hvaðan þú ert,“ sagði Jacoby eftir sundið.

Lydia Jacoby fyrir miðju, Tatjana Schoenmaker til vinstri og Lilly …
Lydia Jacoby fyrir miðju, Tatjana Schoenmaker til vinstri og Lilly King til hægri á verðlaunapallinum. AFP

Tvöfalt hjá Bretum

Bretar fengu bæði gull og silfur í 200 metra skriðsundi karla. Tom Dean sigraði og Duncan Scott varð annar en bronsið fékk Fernando Scheffer frá Brasilíu.

Kaylee McKeown frá Ástralíu sigraði í 100 metra baksundi kvenna, Kylie Masse frá Kanada varð önnur og Regan Smith frá Bandaríkjunum þriðja. McKeown setti Ólympíumet, 57,47 sekúndur.

Rússar fengu gull og silfur í 100 metra baksundi karla en Evgenij Rilov sigraði og Kliment Kolesnikov varð annar. Þriðji varð síðan Ryan Murphy frá Bandaríkjunum.

mbl.is