Spánverjar komnir á blað í Tókýó

Carmen Martín var atkvæðamikil í liði Spánverja í dag.
Carmen Martín var atkvæðamikil í liði Spánverja í dag. AFP

Spánverjar færðu sig upp á skaftið og unnu sigur á Frökkum, 28:25, í annarri umferðinni á Ólympíuleikunum í Tókýó í handknattleik. Spánn tapaði illa gegn Svíum í fyrstu umferð en Frakkar mörðu þá sigur gegn Ungverjum.

Bæði lið eru því með tvö stig en leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og staðan 12:12 í hléinu. Spánverjar voru hins vegar öflugari eftir hlé og unnu að lokum nokkuð sannfærandi sigur. Carmen Martín var markahæst með sex mörk fyrir sigurliðið en Pauline Coatanea skoraði fimm mörk fyrir Frakka.

Fjögur efstu liðin af sex fara upp úr riðlinum og áfram í fjórðungsúrslit. Spánn mætir næst Brasilíu á fimmtudaginn en sama dag fer fram viðureign Frakka og Svía.

mbl.is