Stjarna Japana fallin úr keppni

Naomi Osaka gengur vonsvikin í burtu eftir að hafa fallið …
Naomi Osaka gengur vonsvikin í burtu eftir að hafa fallið úr keppni í morgun. AFP

Naomi Osaka, ein skærasta íþróttastjarna Japana sem er í öðru sæti heimslistans í tennis í kvennaflokki, var óvænt slegin út í einliðaleik á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun og komst þar með ekki í átta manna úrslitin.

Marketa Vondrousova frá Tékklandi gerði sér lítið fyrir og sigraði í leiknum 6:1 og 6:4 og mætir nú annaðhvort Paulu Badosa frá Spáni eða Nadiu Pordoroska frá Argentínu.

Osaka var í lykilhlutverki í setningarathöfn leikanna síðasta föstudag þegar hún tendraði ólympíueldinn.

Vondrousova er 22 ára gömul og situr í 42. sæti heimslistans.

„Hversu vonsvikin er ég? Sko, ég er vonsvikin í hvert sinn sem ég tapa en þetta er mest svekkjandi tap sem ég hef upplifað," sagði Osaka við fréttamenn eftir ósigurinn.

Marketa Vondrousova og Naomi Osaka takast í hendur í leikslok.
Marketa Vondrousova og Naomi Osaka takast í hendur í leikslok. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert