Annað gull þeirrar áströlsku - fimm þjóðir unnu fimm greinar

Ariarne Titmus glöð í bragði eftir að önnur gullverðlaun hennar …
Ariarne Titmus glöð í bragði eftir að önnur gullverðlaun hennar á leikunum voru í höfn í morgun. AFP

Fimm þjóðir fengu gullverðlaunin fimm sem í boði voru í sundkeppni Ólympíuleikanna í Tókýó í morgun.

Ariane Titmus frá Ástralíu fékk sín önnur gullverðlaun á leikunum þegar hún sigraði í 200 metra skriðsundi kvenna á 1:53,50 mínútum. Siobhan Haughey frá Hong Kong varð önnur og Penny Oleksiak þriðja. Titmus sigraði áður í 400 m skriðsundinu og hún setti ólympíumet eftir að hafa siglt fram úr Haughey á lokasprettinum.

Kristof Milak frá Ungverjalandi syndir til sigurs í 200 metra …
Kristof Milak frá Ungverjalandi syndir til sigurs í 200 metra flugsundi. AFP

Kristof Milak frá Ungverjalandi sigraði í 200 metra flugsundi karla og setti ólympíumet, 1:51,25. Tomoru Honda frá Japan varð annar og Federico Burdisso frá Ítalíu þriðji. Milak sagði eftir sundið að gallinn hans hefði rifnað tíu mínútum fyrir sundið og þar með hefði hann misst þá einbeitingu sem hann hefði þurft til að bæta eigið heimsmet.

Katie Ledecky fagnaði ógurlega þegar sigurinn í 1.500 metra skriðsundinu …
Katie Ledecky fagnaði ógurlega þegar sigurinn í 1.500 metra skriðsundinu var í höfn enda var keppnin hörð. AFP

Katie Ledecky sigraði í  1.500 m skriðsundi kvenna eftir harðan slag á 15:37,34 mínútum. Erica Sullivan frá Bandaríkjunum varð önnur og Sarah Kohler frá Þýskalandi hlaut bronsið. Ledecky er fyrsti ólympíumeistari í þessari grein sem nú var í fyrsta sinn á dagskrá á Ólympíuleikum.

Yui Ohashi með gullið eftir sigurinn í 200 metra fjórsundinu.
Yui Ohashi með gullið eftir sigurinn í 200 metra fjórsundinu. AFP

Japanir fögnuðu í 200 metra fjórsundi kvenna þegar Yui Ohashi sigraði á 2:08,52 mínútum. Alex Walsh og Kate Douglass frá Bandaríkjunum fengu silfur og brons.

Bretarnir fagna sigri sínum í boðsundinu.
Bretarnir fagna sigri sínum í boðsundinu. AFP

Sveit Bretlands sigraði í 4x200 metra boðsundi karla. Rússar urðu í öðru sæti og Ástralir í þriðja sæti. Tom Dean, James Guy, Matthew Richards og Duncan Scott skipuðu bresku sveitina sem synti á 6:58,58 mínútum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert