Draumar Dags og Arons fara dvínandi

Dagur Sigurðsson ræðir við sína menn í japanska liðinu í …
Dagur Sigurðsson ræðir við sína menn í japanska liðinu í leiknum við Egypta í morgun. AFP

Möguleikar Arons Kristjánssonar og Dags Sigurðssonar á að koma liðum Barein og Japan í átta liða úrslit handknattleiks karla á Ólympíuleikunum í Tókýó eru orðnir afar litlir eftir ósigra í morgun.

Aron og hans menn í Barein höfðu tapað afar naumlega fyrir Svíþjóð og Portúgal en þeir áttu aldrei möguleika gegn heimsmeisturum Danmerkur. Danir sigruðu 31:21 eftir að hafa verið 12:7 yfir í hálfleik.

Johan Hansen var markahæstur í danska liðinu með 6 mörk og Mathias Gidsel skoraði 4 en enginn í liði Barein gerði meira en þrjú mörk.

Japanir þurftu að leggja Egypta að velli en áttu aldrei möguleika eftir að hafa verið undir í hálfleik, 18:11. Lokatölur urðu 33:29 fyrir Egypta. Ahmed Elhamar skoraði 8 mörk fyrir Egypta og Shinnosuke Tokuda 8 mörk fyrir Japani.

Aron Kristjánsson talar við sína menn í Barein í leikhléi …
Aron Kristjánsson talar við sína menn í Barein í leikhléi í leiknum við Dani í morgun. AFP

Þá unnu Svíar Portúgala í hörkuleik, 29:28, en þar skoruðu Portúgalar þrjú síðustu mörkin og fengu tækifæri til að jafna í síðustu sókninni en sænska vörnin varði skot frá Miguel Martins. Staðan var 14:14 í hálfleik. Niclas Ekberg skoraði 9 mörk fyrir Svía og Albin Lagergren 6.

Þremur umferðum er lokið í B-riðli þar sem Danir eru með 6 stig, Svíar með 6 og Egyptar með 4 stig og fara örugglega í átta liða úrslitin. Portúgal með 2 stig og Barein og Japan sem eru án stiga berjast um síðasta sætið í tveimur síðustu umferðunum.

mbl.is