Einum íþróttamanni gengur illa og allt að fara til helvítis

Þórey Edda Elísdóttir stangarstökkvari á Ólympíuleikvanginum í Aþenu árið 2004 …
Þórey Edda Elísdóttir stangarstökkvari á Ólympíuleikvanginum í Aþenu árið 2004 þar sem hún varð í fimmta sæti. mbl.is/Golli

Þórey Edda Elísdóttir, fyrrverandi afrekskona í frjálsíþróttum sem hafnaði í fimmta sæti í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004, hefur skrifað pistil þar sem hún kveðst ósammála mörgu sem sérfræðingar RÚV sögðu í Ólympíukvöldi á RÚV í fyrrakvöld.

Þar ræddu Ingólfur Hannesson, fyrrverandi deildarstjóri íþróttadeildar RÚV, Gunnar Birgisson, lýsandi á RÚV, og Ingi Þór Ágústsson, sundþjálfari og lýsandi á RÚV, við Kristjönu Arnarsdóttur, umsjónarmann þáttarins. 

Eins og staðan er núna þá er hún afskaplega svört og ég myndi halda að það væri styttra í það að við eigum enga keppendur á Ólympíuleikum en að við eigum gullmedalíu á Ólympíuleikum,“ sagði Gunnar.

„Það eru komnir miklu meiri fjármunir inn á síðustu árum, þeim er dreift til sérsambandanna, og það er spurning hvað verður um þessa fjármuni. Fara þeir út til íþróttafólksins? Fara þeir í að gera það betra? Það er einhvers staðar pottur brotinn,“ sagði Ingólfur.

„Íslenska vorið virðist bara bara búið í íslensku íþróttalífi,“ sagði Ingi Þór.

Þórey Edda er í dag formaður ráðs afreks- og ólympíusviðs ÍSÍ og pistill hennar fer hér á eftir:

„Langar aðeins að tjá mig um þetta mál. Ég er sammála sumu en líka ósammála mörgu sem þarna er sagt.

Ég er sammála því að það þarf að gera meira og það þarf að halda áfram að byggja ofan á það afrekskerfi sem nú er komið í gang. Afrekssjóður hefur stækkað og þegar ég var að æfa og keppa var hann í um það bil 24 milljónum en er nú 400 milljónir.

Afrekssjóði er deilt til sérsambanda og er honum deilt í ákveðin afreksverkefni og nokkra íþróttamenn sem eru á vegum þeirra. Áður fyrr var lítið sem ekkert afreksstarf innan þessara sérsambanda og hefur nú orðið bylting í öllu þeirra afreksstarfi. Þekkingin og sérhæfingin fyrir hverja grein liggur hjá sérsamböndunum og því frábært að hægt sé orðið að styðja við þá þekkingu og þróa hana þar áfram til frekari afreka.

Það má ekki gleyma því í umræðunni að það að búa til afreksíþróttafólk tekur tíma og duga engan veginn þessi fimm ár eða hvað þau eru mörg frá því afrekssjóður stækkaði til að búa til afreksíþróttafólk. Hvar er þolinmæðin segi ég nú bara? Einum íþróttamanni gengur illa á Ólympíuleikunum og það er allt að fara til helvítis. Íslenska vorið bara búið. Ég er langt í frá sammála því.

En við megum auðvitað ekki sofna á verðinum og auðvitað þarf að greina stöðuna hverju sinni, endurskoða stefnur (afreksstefna ÍSÍ er endurskoðuð af íþróttahreyfingunni á hverju íþróttaþingi og A- og B-sérsambönd þurfa að hafa afreksstefnu til að fá úthlutað úr afrekssjóði) og fleira í þeim dúr.

En við eigum fullt af frambærilegu íþróttafólki sem hefur verið að brillera undanfarin ár. Hingað hefur meira að segja verið horft og spurt hvað við séum eiginlega að gera og hvernig við Íslendingar förum að því að eiga svona mikið af góðu íþróttafólki.

Keppendur á leikunum eru bara fjórir og bara einn með lágmark. Það verður í samhengi við þá umræðu líka að benda á að lágmörkin eru miklu strangari en áður fyrr. Við vorum bara tvö að keppa í frjálsum í Aþenu 2004 með mun lakari lágmörk en nú eru sett upp, þrír í frjálsum í Peking, London og Ríó og sama má segja um lágmörkin þar.

En ég er sammála að við þurfum að fylgja þessari þróun. Þurfum að eignast fleiri sterka kandídata, efla afrekssjóðinn enn frekar (dugar enn engan veginn fyrir öllu afreksstarfi). Við þurfum að fá launasjóð fyrir okkar toppafreksíþróttafólk, koma afreksíþróttamiðstöðinni í gang og halda áfram að byggja ofan á okkar góða grunn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert