Möguleikinn á þriðja ólympíugullinu varð að engu

Andy Murray var dapur í bragði þegar hann ræddi við …
Andy Murray var dapur í bragði þegar hann ræddi við fréttamenn eftir leikinn í morgun. AFP

Andy Murray frá Bretlandi, tvöfaldur ólympíumeistari í einliðaleik karla, í tennis er fallinn úr keppni í tvíliðaleik ásamt félaga sínum Joe Sailsbury.

Murray keppir ekki í einliðaleiknum á þessum leikum vegna álagsmeiðsla og ákvað að einbeita sér að tvíliðaleiknum ásamt Sailsbury. Þeir fóru vel af stað í átta liða úrslitunum í morgun og unnu fyrsta settið gegn Marin Cilic og Ivan Dodig frá Króatíu, 6:3, en töpuðu síðan 6:7 og 7:10 og þar með var draumurinn úti.

„Ég veit ekki hvort ég fæ annað tækifæri. Ég elska hverja mínútu sem ég keppi á Ólympíuleikum og ég vildi að þessi leikur hefði endað öðruvísi. Nú átti ég möguleika á einu gulli enn með Joe. Þetta stóð svo tæpt og vonbrigðin eru mikil. Undir lokin vildi ég að ég hefði náð að gera ákveðna hluti betur,“ sagði Murray vonsvikinn eftir leikinn.

mbl.is