Norðmenn unnu botnliðið

Sander Sagosen skoraði sjö mörk í dag er Noregur vann …
Sander Sagosen skoraði sjö mörk í dag er Noregur vann sinn annan leik á leikunum. AFP

Noregur vann botnlið Argentínu, 27:23, í A-riðlinum í handknattleik karla á Ólympíuleikunum í morgun og er þar með búið að vinna tvo af þremur leikjum sínum.

Eftir sigur á Brasilíu í fyrstu umferðinni töpuðu Norðmenn með minnsta mun gegn Spánverjum í síðasta leik, 28:27, þar sem sigurmarkið kom úr vítakasti á lokasekúndunum. Norðmenn skoruðu sex af fyrstu sjö mörkum leiksins í dag en virtust þó ætla að eiga í erfiðleikum með sprækt lið Argentínu sem jafnaði metin um miðjan fyrri hálfleik með því að skora sex mörk í röð. Noregur var með nauma forystu í hálfleik, 13:12.

Í síðari hálfleik sigu þó Norðmenn jafnt og þétt fram úr og unnu að lokum fjögurra marka sigur. Sander Sagosen var markahæstur Norðmanna með sjö mörk en Magnus Jøndal var næstur með sex.

mbl.is