Hvað hrjáir Simone Biles?

Simone Biles.
Simone Biles. AFP

Bandaríska fimleikakonan Simone Biles mun ekki taka þátt í úrslitum í fjölþraut kvenna sem fram fara í Tókýó í dag. Ákvörðun Biles, sem er einn fremsti íþróttamaður heims, hefur vakið talsverða athygli og hefur hún hlotið mikið lof fyrir að vekja athygli á andlegri heilsu íþróttafólks.

Biles sagði við blaðamenn í gær að hún væri að upplifa það sem á ensku er kallað „twisties“. Notkun Biles á hugtakinu leiddi strax til mikillar umræðu meðal fimleikafólks, sem þekkja vel hve hættulegt það getur verið að upplifa þetta ástand – twisties – en fyrir aðra er hugtakið nokkuð framandi. 

Fimleikafólk hefur lýst hugtakinu sem nokkurs konar meinloku (e. mentalblock). Í ákveðnum íþróttagreinum, eins og t.d. golfi, gæti slík meinloka valdið því að púttin gangi ekki upp eða að þú sláir illa. En í fimleikum getur ástandið valdið því að íþróttamaðurinn missi skyn sitt á rými og plássi á meðan hann er í loftinu, sem síðan veldur því að hann missir stjórn á líkama sínum og gerir oft fleiri skrúfur eða heljarstökk en hann hafði ætlað. Í slæmum tilvikum getur ástandið valdið því að íþróttamaðurinn nær ekki að lenda örugglega úr stökki. 

Simone Biles.
Simone Biles. AFP

Umrætt ástand getur komið upp jafnvel þó að íþróttamaðurinn hafi æft stökk sín aftur og aftur. 

Þeir sem vel til þekkja höfðu orð á því að Biles virtist vera í ójafnvægi á þriðjudag áður en hún síðan dró sig í hlé í liðakeppninni, þar sem Rússar báru síðan sigur úr býtum. Breska fimleikakonan Claudia Fragapane keppti á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016. Hún datt af tvíslánni og jafnvægisslánni í undankeppninni og í apríl á þessu ári hlaut hún höfuðmeiðsli eftir að hafa dottið aftur við æfingar. Hún gat þar af leiðandi ekki tekið þátt í Tókýó. 

Fragapane segir í samtali við BBC að hún hafi „skilið nákvæmlega hvernig Simone leið“ á þriðjudag. 

AFP

 „Það er mikil pressa á henni. Allir halda að hún muni verða fullkomin og að hún sé bara ekki mannleg. En hún er mannleg, og ég held að pressan hafi bara verið orðin of mikil. Það er mjög hættulegt ef þú efast aðeins um sjálfan þig, eða ef þér finnst það erfitt, þá getur þú virkilega slasað þig. Ég hef verið í hennar sporum og endaði á að meiða mig,“ segir Fragapane. 

Christina Myers, fyrrverandi fimleikakona og nú fimleikaþjálfari, segir við BBC að twisties sé þegar „heili og líkami missa sambandið“.

„Ímyndaðu þér að vera í fallhlífarstökki og fallhlífin opnast ekki. Líkaminn þinn byrjar að framkvæma auka snúninga og hreyfingar við stökkið sem þú átt að vera gera, og það getur haft áhrif á æfingar sem eru jafn auðveldar og að ganga fyrir afreksfimleikafólk. Heilinn þinn vill ekkert frekar en að framkvæma æfinguna eins og hún á að vera, en það er eins og líkaminn hugsi skyndilega fyrir sjálfan sig,“ segir Myers. 

AFP

Myers segir að þar sem twisties sé fyrst og fremst andlegt vandamál verði ástandið bara verra ef þú reynir að koma þér í gegnum það með hörku. 

Önnur fyrrverandi fimleikakona, Catherine Burns, líkti twisties við það að vera á mótorhjóli á hraðbraut og missa skyndilega vöðvaminnið fyrir akstur. 

„Þú ert á of miklum hraða, þú er alveg týnd, og þú ert að hugsa að vanalega þarftu ekki að hugsa neitt til að gera þessa hreyfingu, þú bara finnur hana og gerir hana. Þetta er ekki bara ógnvekjandi og óþægilegt heldur er þetta líka stórhættulegt jafnvel þó að þú sért að gera auðveldar æfingar,“ segir Burns. 

Twisties getur leitt til lífshættulegra meiðsla. Fyrrverandi fimleikakonan Jacoby Miles sagði í færslu á Instagram í gær; „Það þurfti bara eitt skipti sem ég týndist í loftinu og ég hálsbrotnaði og er lömuð líklega fyrir lífstíð. Ég er svo glöð að Biles hafi ákveðið að halda ekki áfram fyrr en hún jafnar sig,“ sagði Miles. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert